139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að segja við félaga minn, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, að við tökum þetta skref fyrir skref. Þetta er allt að koma, [Hlátur í þingsal.] við skulum bara halda í bjartsýnisvonina. (Gripið fram í: En ekki …)

Þótt hv. þingmaður tali um lítils háttar aukningu er hagvöxtur upp á 1,8% aukningu ekki lítils háttar. Ég skal taka undir að það er enginn gríðarlegur hagvöxtur en það sýnir okkur að við erum smám saman að komast upp úr þeirri erfiðu efnahagslægð sem við höfum verið í.

Aukin einkaneysla sýnir okkur líka að heimilin eru farin að trúa því að það sé að rakna úr hlutum hjá okkur (Gripið fram í: … borgar …) og þau geti farið að eyða meira en þau leyfðu sér þegar óttinn við framtíðina var meiri. (Gripið fram í.)

Varðandi fjárfestingar er það alvörumál þegar fjárfestingar dragast saman með þessum hætti, enda eru það fyrirtækin í landinu sem eiga að leiða okkur út úr þessari kreppu með því að skapa verðmæti svo við getum notað þau til að njóta lífsins sem heimilin í landinu, til að kaupa lífsnauðsynjar og fjármagna velferðarkerfið okkar.

Nú eru fram undan framkvæmdir á Búðarhálsi vegna stækkunar Straumsvíkur. Við eigum von á því að við náum samkomulagi við erlendar þjóðir um Icesave-samningana og í þriðja lagi skulum við líta til þess að fram undan eru einbeitt verkefni ríkisstjórnar og lánastofnana í að endurskipuleggja skuldir fyrirtækja svo þau komist í það ástand að geta fjárfest til að skapa atvinnu og auð fyrir landið okkar. Þess vegna vil ég segja við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson: Að sjálfsögðu hefðum við öll viljað sjá jafnvel enn betri tölur og miklu betri tölur í fjárfestingu, en þetta kemur allt saman (Forseti hringir.) skref fyrir skref.