139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

mannvirki.

78. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Ég vil þakka hv. þingmönnum umræðuna um nefndarálitið og frumvarpið eins og það er nú og ætla að stikla aðeins á stóru í þeim efnum sem menn hafa hér vakið. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Birgis Ármannssonar og Vigdísar Hauksdóttur um kostnaðinn. Við höfum að vísu ekki rætt hann mikið í nefndinni og lítum kannski svo á, samanber athugasemdir í greinargerð með frumvarpinu, að þetta sé það gjald sem þarf að greiða til að koma málunum á rekspöl. Þó er rétt að vekja athygli á því að dregið hefur mjög úr kostnaði sem gert er ráð fyrir við frumvarpið, frá frumvarpinu á síðasta þingi. Það skýrist af því að gert er ráð fyrir hægari uppbyggingu hinnar nýju stofnunar, Mannvirkjastofnunar — ef menn fallast á okkar tillögu um nafnið — en áður var fyrirhugað. Meira er í raun og veru ekki um það að segja. Öll frumvörp sem valda auknum útgjöldum án þess að nánast þurfi að slökkva elda eru auðvitað þannig að rétt er að grandskoða þau. Ég held þó að málið sé þannig vaxið að ef við hefðum sett kostnaðinn fyrir okkur hefðu þessir þrír lagabálkar tafist enn. Þess vegna verður að ganga í þetta mál.

Ég vil líka minnast aðeins á ábyrgð eigenda sem hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi. Þetta hefur aðeins staðið í mönnum. Ég held að það sé vegna þess að nú eru breyttir tímar, ég skýri það a.m.k. þannig fyrir sjálfum mér. Á mínum sokkabandsárum vorum við strákarnir kallaðir í naglhreinsun hjá frænda þegar þurfti að klára málin fyrir einhvern lánsáfanga og látnir vinna hér og þar, fjölskyldan safnaðist saman og hjálpaði til þegar einstaklingar, venjulegt fólk, var að byggja. Þannig var þetta um miðja síðustu öld og lengi frameftir og er kannski að vissu leyti enn þá þannig. Meginbreytingin er þó auðvitað sú að núna eru hús sjaldnast byggð þannig að lokaeigandinn sjái um bygginguna nema hann sé annaðhvort fagmaður eða ákaflega vel stæður. Hin almenna regla er sú að verktaki eða byggingarfyrirtæki byggir húsið og telst eigandi þess á meðan. Hann selur síðan íbúðina eða húsið þegar það hefur verið byggt. Þetta breytir auðvitað þeirri ábyrgð. Það verður líka að hafa í huga að ábyrgð eigenda byggist á því að hann geti reitt sig á þá tvo hjálparmenn sem raunverulega sjá um húsbygginguna, annars vegar byggingarstjórann og hins vegar hönnunarstjórann. Þetta getur hann vegna þess að kveðið er á um úttektir af ýmsu tagi, ekki síst lokaúttekt en einnig öryggisúttekt sem getur komið til áður við verkið. Hann á því að geta reitt sig á að þetta sé í lagi áður en hann tekst á hendur ábyrgðina sem honum er falin samkvæmt frumvarpinu.

Ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni að sýna á varkárni við að fara inn í aðra lagabálka. Sem betur fer er það þannig í þessu frumvarpi að eini lagabálkurinn sem farið er inn í, a.m.k. við lok 2. umr. ef allt fer sem horfir, eru þau lög sem nefndin vélaði um sjálf í september. Það má því segja að miðað við hættuna sem af þessu kann að stafa sé hún að þessu sinni í lágmarki.

Ég þakka þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni og það er rétt að ítreka það sem Ólafur Þór Gunnarsson hv. þingmaður sagði, að það er full ástæða til að gleyma ekki, í almennum þökkum okkar hvert til annars, farsælli forustu Ólínu Þorvarðardóttur, fyrrverandi formanns umhverfisnefndar, við breytingarnar í haust. Ég verð að segja að eftir að ég settist í umhverfisnefnd, var nýkominn á þingið aftur, og hafði litið yfir málin þá hafði ég satt að segja ekki nokkra trú á því að þetta gengi. En kjarkur Ólínu Þorvarðardóttur að vestan var slíkur að síðri menn þurftu að skipta um skoðun og taka þátt í framkvæmdunum sem hún hóf og við erum núna að komast að lokunum á.