139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Aðdragandi þessa frumvarps, máls nr. 79, hefur verið rakinn í umræðunni um síðasta mál, mál nr. 78, og þarf ekki að fara nánar í það. Þau atriði frumvarpsins sem fengu einna mesta umfjöllun í nefndinni voru björgun á fastklemmdu fólki, eins heppilegt og það orðalag er nú en enn hefur ekki fundist annað betra, um stjórn slökkviliðsstjóra á vettvangi, um eldvarnir í gróðurlendi og um gildissvið brunavarnalaganna sem frumvarpinu er ætlað að breyta.

Þá er að segja frá því að tveimur af þessum álitamálum er þannig háttað að nefndin hyggst taka þau til frekari umfjöllunar eftir að 2. umr. er lokið. Sú umfjöllun er reyndar hafin í nefndinni af ástæðum sem áður voru raktar en við kjósum í nefndarálitinu og í breytingartillögunum að sýna ákveðna afstöðu sem vissulega getur breyst þegar búið er að kanna málin í botn.

Í þessari framsöguræðu ætla ég þess vegna ekki að fjalla sérstaklega um álitamálin um fastklemmt fólk og störf slökkviliðsstjóra á vettvangi annars vegar og hins vegar um eldvarnir á flugvöllum. Um eldvarnir vegna hættu á gróður- og skógareldum vil ég segja að við höfum fjallað um það mál vegna ýmissa athugasemda sem komu fram og tökum undir ábendingar í umsögnunum um að nauðsynlegt sé að lögfesta ákvæði um þessi efni. Í nefndarálitinu hvetur nefndin umhverfisráðherra og væntanlega Mannvirkjastofnun að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar. Nefndin hefur reyndar um það vissu að verið sé að leggja drög að þeirri vinnu í stofnunum hæstv. umhverfisráðherra og gerir ekki tillögu um sérstök ákvæði sem lúti að þessu enda er hér ekki um að ræða heildarendurskoðun á lögunum.

Rétt er að taka það líka fram að þegar frumvarpið var lagt fram á 135. þingi, þ.e. þarsíðasta þingi, var í því ákvæði um slysatryggingu slökkviliðsmanna. Það kvað á um að slökkviliðsmenn og aðrir sem vinna að brunavörnum eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra séu slysatryggðir við æfingar og önnur störf í þágu brunavarna eða vegna mengunaróhappa á landi. Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna gerir í umsögn sinni athugasemdir við að ákvæðið sé ekki í frumvarpinu nú, þar sem dæmi séu um að slökkviliðsmenn í hlutastarfi slasist í æfingum eða útköllum og geti ekki snúið aftur í sitt aðalstarf. Nefndin telur að skoða þurfi slysatryggingamál slökkviliðsmanna ítarlega og leggur til að umhverfisráðherra ráðist í það nú þegar, í samráði við Samtök slökkviliðsmanna og við stjórnir sveitarfélaganna, en á þeim stað mun vinnu við þetta ekki vera lokið. Þar er á að knýja að ný skipan náist í þessum málum.

Auk þessara breytingartillagna og umfjöllunarefna er frá því að segja að nefndin hefur lagt til nokkrar aðrar breytingar sem þarf varla að rekja hér. Þær eru annars vegar um lagatæknileg atriði og hins vegar nokkrar málfarslegar breytingar. Eins og áður er nefndin einhuga í málinu. Að vísu eru tveir nefndarmenn með fyrirvara, þeir sömu og í mannvirkjalagafrumvarpinu, hv. þm. Birgir Ármannsson og Vigdís Hauksdóttir, en aðrir eru auk mín meðmæltir þessu máli, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, Álfheiður Ingadóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Skúli Helgason og Birgitta Jónsdóttir. Kristján Þór Júlíusson hv. þingmaður var fjarverandi vegna anna við fjárlagagerðina. Læt ég þar lokið máli mínu að sinni.