140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:18]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem fram hefur komið í umræðunni. Það er ýmislegt óljóst í löggjöfinni eins og hún er, heilbrigðislöggjöfinni í heild sinni. Núna gerast hlutir án þess að beinlínis sé kveðið á um þá í lögum. Til dæmis er gjafasæði af óþekktum uppruna heimilt sem þýðir um leið að barn þekkir ekki uppruna sinn. Það er áleitin spurning hvort ekki sé þá ástæða til að herða á þeirri löggjöf.

Líffæragjafir úr lifandi fólki tíðkast hér og eru leyfilegar, hafa verið það frá árinu 1991. Það hefur meðal annars gerst að börn undir 18 ára aldri hafa gefið líffæri, lifandi börn. Þetta eru siðferðileg álitamál. Þess vegna get ég ekki tekið undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram um að við eigum frekar að leyfa hlutum að þróast án lagaramma ef þeir ganga vel. Ég held að við séum nefnilega komin að þeim mörkum tækniframfaranna að við verðum að fara að setja lagaramma um ýmislegt sem gerist vegna þess að það er mögulegt. Við verðum að fara að svara áleitnum siðferðilegum spurningum lútandi að því sama efni.

Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann fyrst hún telur ástæðu til að taka afstöðu til þess hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun, jafnvel að banna hana alveg og setja viðurlög. Fyndist henni þá ekki ástæða til að taka þá spurningu lengra og fara jafnvel að velta fyrir sér þeirri tilhögun sem er til staðar nú þegar með sæðisgjöf af óþekktum uppruna, með líffæragjafir úr lifandi fólki o.s.frv.? Svo kem ég í annað andsvar til að ræða fleira.