140. löggjafarþing — 43. fundur,  17. jan. 2012.

staðgöngumæðrun.

4. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú væri mjög freistandi að taka virðulegan forseta sem fyrirmynd og svara bara já og fara síðan úr ræðustól. Ég ætla hins vegar ekki að gera það, enda er ég farin að nota töluvert fleiri orð en hæstv. forseti gerði þegar hann svaraði mér hérna í eitt skiptið.

Já, svo sannarlega. Það er það sem ég held að ég sé að reyna að segja í andsvörum og með ræðu minni að ég er sammála því að skerpa þurfi á lögunum. Þar sem ég stoppaði mjög við í nefndaráliti meiri hlutans og hvernig meiri hlutinn afgreiddi málið frá velferðarnefnd var einmitt sú áhersla á að heimila staðgöngumæðrun. Ef komið hefði fram í raun frekari tillaga um að farið yrði í gegnum þessi álitamál og lagafrumvarp unnið í framhaldi af þeirri niðurstöðu sem viðkomandi starfshópur kæmist að, þess vegna jafnvel að möguleiki væri á að koma með mismunandi tegundir af frumvörpum, þá gætu þingmenn tekið afstöðu til mismunandi útfærslu á þeim málum.

Ég held að það sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir nefndi um líffæragjafir barna eða fullorðinna einstaklinga sé eitt af því sem við ættum tvímælalaust að endurskoða. Nú er það þannig að fólk þarf að gefa upplýst samþykki fyrir fram um að hægt sé að gefa líffæri úr látnum einstaklingum. Það er ekki eins og mér skilst að sé í nágrannalöndum okkar þar sem þar er ætlað samþykki fyrir fram, það þarf því að hafna því til að ekki sé gefið við andlát.

Það málefni sem hv. þingmaður nefndi um lifandi einstaklinga er tvímælalaust eitthvað sem þarf að skoða.