145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

lögmæti smálána.

311. mál
[16:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Vextir af lánum hafa verið stærra bitbein í gegnum mannkynssöguna en margir átta sig á. Umræða um slíkt á sér hreinlega trúarlega sögu og hefur jafnvel orðið til þess að það er ágreiningur milli menningarhópa um þetta atriði. Það er mun stærra mál en flest átta sig á. Nú er ég almennt þeirrar skoðunar að fólk verði að bera ábyrgð á eigin fjármálum. Til þess þarf það að geta tekið upplýstar ákvarðanir og til þess þarf það að hafa aðgang að upplýsingum og til þess þarf það að hafa skilning á gjörðum sínum, skilning á því viðskiptasambandi sem það er að fara í. Þetta á við þegar fólk tekur yfirdráttarlán, þegar það fær sér kreditkort eða þegar það tekur húsnæðislán, sér í lagi ef það er verðtryggt. Ég tel að almennt geti fólk kynnt sér þessi mál til hlítar hafi það tíma, áhuga og sjálfstraustið. Ef það gerir það getur það samt komist að þeirri niðurstöðu að það geti verið skynsamlegt að hafa kreditkort eða taka verðtryggt lán. Það sem mér er hins vegar fyrirmunað að skilja er hvernig manneskja getur komist að þeirri niðurstöðu eftir íhugun og góða athugun að það sé skynsamlegt að taka smálán. Í því sambandi finnst mér mikilvægt að það sé skýrt og að einhverju leyti strangt regluverk í kringum það hvernig smálánastarfsemi sé heimil.

Það er mikilvægt að það sé einhver framþróun í lánamálum og peningamálum til að framþróun geti átt sér stað í kjölfarið á því. En öllu má ofgera og það sem mér hefur fundist með þessi smálán er að þau höfða sérstaklega til fólks sem má ekki við þeim. Í einni rannsókn í Bretlandi sögðust 60% sjá eftir því að hafa tekið smálán og 48% töldu fjárhagsstöðu sína versna vegna þeirra. Nú hefur sá sem hér stendur oft tekið yfirdrátt og oft komið sér í pínulítið klandur með því, ég get samt ekki sagt að ég sjái beinlínis eftir því vegna þess að oft er maður bara fórnarlamb aðstæðna, eitthvað því um líkt, eða er bara hreinlega sama um stundarsakir.

Hins vegar get ég ekki að því gert að ef einhver kæmi til mín og spyrði hvort hann ætti að taka smálán mundi ég ekki spyrja hvernig staðan væri, ég mundi segja: Nei, ekki gera það. Það er slæm hugmynd, því fylgir svo hrikalegur kostnaður.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Hefur farið fram ítarleg athugun í ráðuneytinu, eða eftir atvikum hjá dómstólum, á lögmæti svokallaðra smálána? Hefur einhver samræða um þessa tegund lánastarfsemi átt sér stað á vettvangi EES eða Evrópusambandsins? Hefur ráðherra upplýsingar um hvernig lán þessi eru innheimt og hversu hart er fram gengið í þeim efnum? Geta smálánafyrirtæki átt lögmætar kröfur á aðstandendur lánþega og þekkir ráðherra dæmi um tilraunir smálánafyrirtækja til að innheimta hjá aðstandendum? Hefur verið kannað hjá ráðuneytinu eða undirstofnunum þess hvort ólögmætri nauðung hafi verið beitt við lántökur hjá smálánafyrirtækjum, t.d. við innheimtu fíkniefnaskulda?

Síðast en ekki síst spyr ég: Hafa lánþegar sem fastir eru í viðjum smálána einhver úrræði hjá hinu opinbera til að komast úr þeim viðjum og ef svo er ekki, telur ráðherra þörf á slíkum úrræðum eða aðstoð?