145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

lögmæti smálána.

311. mál
[16:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og hæstv. ráðherra svörin. Þetta er mjög mikilvægt og ég ætla ekki að fara yfir það hér af hverju, það hefur margoft verið gert. Mikilvægt er að stemma stigu við starfsemi smálánafyrirtækja og mikilvægt að afli löggjafans verði beitt af fullri einurð til að ná þeim árangri. Við bíðum nú niðurstöðu í dómsmáli sem smálánafyrirtæki hafa höfðað gegn Neytendastofu vegna dagsektarákvarðana. Það er mikilvægt að á sama tíma horfum við til annarra möguleika sem kunna að vera í löggjöf til að þrengja að starfsemi smálánafyrirtækja.

Eitt af því sem kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns er það hvort við ættum að búa til sérstaka leið í gegnum gildandi lög um greiðsluaðlögun til að auðvelda afskriftir þessara lána, einfalda það ferli og búa til sérstakan feril til að þeir sem ekki geta staðið í skilum geti auðveldlega losnað við það. Þetta er sannanlega (Forseti hringir.) lánastarfsemi sem styðst ekki við neinn þann grunn sem hægt er að kalla samfélagsleg verðmæti. Það er mikilvægt þegar lánastarfsemi beinist með jafn ríkum hætti og raun ber vitni að fólki sem stendur höllum fæti í samfélaginu að við auðveldum fólki leiðina út.