148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

jöfn meðferð á vinnumarkaði.

394. mál
[16:28]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta framsögu og góða útlistun á frumvarpinu og tek það fram að ég er afar ánægður með að við skulum vera að stíga þetta skref. Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra út í tvö atriði. Í fyrsta lagi í 12. gr. um frávik vegna aldurs. Það er raunar tekið fram í 1. gr. að ekki megi mismuna á grundvelli aldurs. Þetta tel ég vera algjört lykilatriði og mjög mikilvægt. Í daglegu tali verðum við miklu meira vör við að verið sé að mismuna á grundvelli aldurs til að mynda þegar á að ráða einhvern tiltekinn aldurshóp í tiltekið starf. Hins vegar verðum við ekki eins mikið vör við það og það er ekki eins mikið tala um það þegar fólki sem er komið yfir 67 ára aldur eða sjötugt er meinað um atvinnuþátttöku eða er hreinlega ýtt út af vinnumarkaði í sumum tilfellum nánast með lagafyrirmælum.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það standi til eða hvort það hafi farið fram umræða um það hvort þurfi þá til að mynda að breyta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna í samræmi við þessi lög, þ.e. taka aldurstengdu ákvæðin þaðan út og láta frekar einhverjar aðrar málefnalegri ástæður en aldur ráða því hvenær fólk lætur af störfum.

Síðan atriðið í 14. gr. um afsal réttinda, bann við afsali réttinda. Þetta er einnig afar mikilvægt atriði. Mig langar að biðja ráðherra að reifa það í stuttu eða löngu máli hvort hann eða ráðuneytið hafi áhyggjur af að þetta hafi áhrif á samningsgerð starfsmanna við sína vinnuveitendur.