148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já. Það að ríkið láti ekki nægt fé með þeirri þjónustu sem það felur sveitarfélagi stórskaðar sveitarfélög. Sveitarfélög eru mjög háð því að eiga í innbyrðis samkeppni hvert við annað og Reykjavík auðvitað við útlönd. Ef ég tek dæmi af Akureyri þá borgar Akureyrarbær um 400–500 milljónir með öldrunarþjónustunni á hverju einasta ári því að daggjöldin nægja ekki nema rétt til að standa undir launum. Hvað þýðir þetta? Jú, það þarf að taka peninga annars staðar frá. Þú tekur peningana eðlilega ekki úr lögbundnu þjónustunni heldur þeirri ólögbundnu. Þeir eru teknir úr íþróttum, menningu, félagsþjónustu aldraðra og ýmsum hlutum sem eru til þess fallnir að auka samkeppnishæfni sveitarfélagsins og auðvitað bæta lífsgæði. Ríkið á ekki að setja sveitarfélag í þessa stöðu. Ég held að þar taki hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson undir með mér, að minnsta kosti þar.