149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

kjararáð.

413. mál
[16:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hætta mér út í það að svara með afgerandi hætti með stöðu presta án þess að skoða það, en ég hef hallast að því að þeir væru ekki opinberir starfsmenn í hefðbundnum skilningi, en það kann vel að vera að þeir njóti réttinda samkvæmt lögum um opinbera starfsmenn upp að einhverju marki. Það er bara atriði sem ég get ekki úttalað mig um hér án þess að hafa fengið tækifæri til að skoða það betur. En njóta þeir þess réttar að um kjör þeirra verði fjallað af þriðja aðila, óvilhöllum? Já, ég tel að með þessu fyrirkomulagi sé kominn mjög hlutlaus mælikvarði. Við byggjum á launaákvörðun sem kjararáð hefur úrskurðað um eða tekið ákvörðun um og til framtíðar er fundið þarna hlutlægt viðmið sem ég tel að uppfylli þetta skilyrði. Það væri dálítið langt gengið að segja skýran áskilnað um að koma þurfi á fót sérstakri nefnd eða viðhalda einhvers konar ráði til að taka þetta hlutverk að sér sérstaklega. Ég tel þess vegna að þetta uppfylli þennan þátt.

Síðan er spurning hvort næst saman við kirkjuna um þetta. Ég verð bara að láta það duga að segja að ég hef skynjað vilja til að ljúka málinu og ég held að það sé eftirsóknarvert fyrir kirkjuna. Það fæli í sér enn frekari fjárhagslegan aðskilnað sem væri til þess fallinn að auka sjálfstæði kirkjunnar. Miðað við síðustu fregnir af málinu er ágætisgangur í þeim viðræðum og ég varð vongóður um að góð niðurstaða fengist um þetta atriði í viðræðunum.