149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

440. mál
[17:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Með lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, sem tóku gildi árið 2007, átti að styrkja rekstrargrundvöll stjórnmálaflokka með fjárframlögum frá ríkinu samhliða því að frjáls framlög frá einstaklingum og lögaðilum voru takmörkuð. Reyndin er hins vegar sú að framlögin hafa helmingast og á sama tíma hefur flokkunum sem skipta á milli sín upphæðinni fjölgað, launa- og neysluverðsvísitölur hafa á sama tíma hækkað verulega á tímabilinu og þess vegna þurfti að bregðast við. Ég vil hrósa því samráði sem átti sér stað við þessa vinnu og við undirbúning þessa frumvarps, sem var þvert á flokka.

Með minnkandi fjármagni er stuðningur við nýsköpun, þróun, sérfræðiþekkingu og alþjóðatengsl enginn í stjórnmálasamtökum. Stjórnmálaflokkar hafa átt í erfiðleikum með að ná endum saman til að sinna því allra nauðsynlegasta í rekstri stjórnmálaflokkanna og þar með að uppfylla markmið laganna.

Mikilvægt skref er stigið í frumvarpinu sem við ræðum hér með því að tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka. Minni flokkar hafa átt í erfiðleikum með að standa á eigin fótum, ef svo má segja. Með frumvarpinu er staða þeirra betur tryggð, enda mikilvægt fyrir fulltrúalýðræðinu í landinu.

Það er fagnaðarefni að núna með þessu frumvarpi sé hægt að beita sektum ef auglýsingar eða annað efni er birt í stjórnmálabaráttu eða kosningabaráttu án þess að fram komi við birtingu hver stendur að henni. Við höfum verið að upplifa ýmsar áskoranir í breyttu stjórnmálalandslagi og vægi samfélagsmiðla hefur aukist stöðugt. Þessi þróun hefur skapað farveg á Íslandi fyrir nafnlausar auglýsingar og slíkt er ógn við lýðræðið. Margt bendir til þess að útbreiðsla falsfrétta og að staðleysa úr ranni svokallaðra tröllaverksmiðja hafi töluverð áhrif á stjórnmálin. Það er mikilvægt að stjórnmálaflokkar hafi bolmagn til að sporna við þessari þróun og tryggja á sama tíma og vinna á sama tíma að opnara samfélagi, að frelsi og öflugu lýðræði.

Við í Samfylkingunni erum hlynnt þessu frumvarpi.