150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[15:49]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mig langaði bara að vekja athygli á því af því að talsvert var gert úr því að fjárlagafrumvarpið hefði verið afgreitt frá Alþingi á réttum tíma, og þótti sögulegt, að í lögum um opinber fjármál er einmitt tiltekið sérstaklega að ljúka skuli afgreiðslu tekjufrumvarpa fjárlaganna, þeirra sem við ræðum hér, áður en fjárlög eru endanlega afgreidd í þingsal. Við vinnum það með akkúrat öfugum formerkjum hér. Við kláruðum fjárlögin fyrst en tökum svo tekjuhlutann eftir á. Það er hálfgerð sýndarmennska því að það er engin leið fyrir þingið að eiga að neinu ráði við tekjuráðstafanir ríkissjóðs eftir að búið er að samþykkja útgjaldahliðina. Því væri ágætt ef við hefðum þann háttinn á framvegis að við færum eftir lögum um opinber fjármál og kláruðum þessar tekjuráðstafanir áður en við ljúkum útgjaldahliðinni. Það er dálítið hjákátlegt að tala um að við höfum klárað fjárlagagerðina á réttum tíma þegar við erum að ljúka tekjuráðstöfununum um miðjan desember.