150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[18:10]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því að hv. þingmaður svaraði ekki spurningum mínum með neinum hætti, hvorki fullnægjandi né öðrum. Mig langar samt að vísa í athugasemd í endurskoðunarskýrslu Ríkisendurskoðunar á ríkisreikningi 2017, með leyfi forseta, þar sem bent er á „beiðni þjóðkirkjunnar til reikningsskilaráðs ríkisins frá 17. maí 2018 um mat á fjárhagslegri skuldbindingu sem felst í samningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 4. september 1998 og áhrif á stofnefnahagsreikning kirkjunnar og ríkissjóðs“. Það sem þetta snýst um er að kirkjan veit ekki hversu miklar eignir voru færðar á milli, íslenska ríkið veit ekki hvaða eignir voru færðar á milli og það eru óupplýstar og óútkljáðar deilur um hvaða eignir voru færðar á milli.

Ég spyr því enn og aftur: Finnst hv. þingmanni það fullnægjandi að við (Forseti hringir.) aðskiljum ríki og kirkju með þeim hætti sem verið er að gera með þessu frumvarpi án þess að það liggi fyrir hvaða eignir færðust á milli?