150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:57]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það hefur tíðkast að ráðherrar séu viðstaddir umræðurnar til þess að geta komið í andsvör við hv. þingmenn og svarað spurningum þeirra. Það er alveg hægt að afsaka að það hafi ekki verið gert að þessu sinni, það eru oft ýmis lögmæt verkefni sem ráðherrar þurfa að vinna, en mér finnst ekki málefnalegt hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að láta eins og að það að fleiri en einn frá hverjum flokki telji sig þurfa að koma einhverju á framfæri þýði að þar með sé eingöngu um endurtekningar að ræða. Það er ekki búið að vera þannig í dag, ég er búinn að hlusta á margar góðar ræður og hingað til hef ég ekki orðið var við neina endurtekningu nema að því takmarkaða leyti sem þemað er það sama sem er eðli málsins samkvæmt það sem gerist þegar verið að ræða eitt tiltekið mál.

Ég óska eftir því að ekki sé reynt að láta eins og þetta sé einhver ómálefnaleg endurtekningarvinna. Við erum raunverulega að ræða um þetta mál sem skiptir miklu máli fyrir framtíð þjóðkirkjunnar og fyrir þjóðarbúið allt.