150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka ofan fyrir þeirri skoðun að alla vega séu hinar bækurnar velkomnar líka. Ég er alveg til í að ræða betur við hv. þingmann um það. Það sem skiptir máli er að það sé jafnræði. Aftur á móti varðandi það sem hv. þingmaður segir um að það halli á kristni í umræðunni þá er það, með fullri virðingu, virðulegi forseti, frekar fjarstæðukennd skoðun að mínu mati. Það kvarta allir trúarhópar yfir því að verða undir í umræðunni. Líka trúleysingjar, ef trúarhóp skyldi kalla. Það er rosalega ríkt í öllum trúarsamfélögum að tala um hvernig það trúarsamfélag sé kúgað, yfirleitt vegna þess að það er einhver söguleg kúgun til staðar, hvernig kristnir voru kúgaðir hér eða þar, í Grikklandi eða Róm o.s.frv., hvernig múslimar voru kúgaðir hér og þar og annars staðar o.s.frv. Það eru oft mjög gamlar og miklar sögur um slíka kúgun sem eru dæmigerðar, því miður. En sú pæling að kristni sé einhvern veginn undir í íslensku samfélagi sem er með þjóðkirkju sérstaklega verndaða í stjórnarskrá, sem er yfirþyrmandi stærsta trúfélagið og verndað af Alþingi, þjóðkirkju sem ríkisstjórnin semur við og virðist vera með í liði, (Forseti hringir.) er algjörlega afleit, virðulegi forseti. Það er algjörlega út í hött og þvert á allar staðreyndir allra mála sem varða málið yfir höfuð að það halli á kristni á Íslandi.