150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fjalla um orð hæstv. ráðherra í málinu, en hæstv. ráðherra hefur svolítið verið að gagnrýna það að hv. þingmenn séu að fara út fyrir efnið og ræða samband ríkis og kirkju og kirkjujarðasamkomulagið og allt það. Ég er ósammála hv. þingmanni um að það komi málinu ekki við. Ég er ósammála hæstv. ráðherra um að hér séu menn að fara út fyrir efnið. Þá nefni ég sem dæmi 16. gr. frumvarpsins sem hér um ræðir en þar er lagt til að V. kafli laganna, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, falli brott. Sá kafli þeirra laga samanstendur af tveimur greinum, 60. og 61. gr. Þar kemur fram hvernig launagreiðslur til presta skuli fara eftir fjölgun og fækkun meðlima þjóðkirkjunnar og er miðað við 5.000 manna holl í lagatextanum, í 60. gr. nánar tiltekið. Það er ekki eitthvert smáatriði. Það er hluti af þeirri breytingu sem verið er að gera með viðbótarsamkomulaginu. Ég held, með fullri virðingu, virðulegi forseti, að hæstv. dómsmálaráðherra skilji einfaldlega ekki hvað það er sem þingmenn eru á móti. Þeir eru á móti viðbótarsamningnum og þetta er útfærsla á honum. Þess vegna er eðlilegt að ræða viðbótarsamninginn í samhengi við frumvarpið og auðvitað kirkjujarðasamkomulagið í samhengi við það, enda viðbótarsamningur við kirkjujarðasamkomulagið. Málsmeðferðin öll í kringum þetta mál og kirkjujarðasamkomulagið og í kjölfarið viðbótarsamninginn ber öll einkenni þessa undarlega sambands sem ríkið hefur við þjóðkirkjuna og ég er fullkomlega ósammála því að hér sé verið að tala um eitthvað annað en þetta mál.

Nú ber ég fulla virðingu fyrir því að hæstv. dómsmálaráðherra vill eflaust ræða nákvæmlega þessar lagagreinar. Þessar lagagreinar eru í samhengi og taka á lögum sem byggja á 62. gr. stjórnarskrárinnar, og þessum sérstaka stuðningi og þessari sérstöku vernd sem heimilar það sem annars væri brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar, um jafnræði fyrir lögum. Frumvarpið varðar með beinum hætti viðbótarsamninginn og kirkjujarðasamkomulagið og beinlínis hvernig greiðslurnar eru ákvarðaðar og það er það sem ágreiningurinn snýst um, alla vega frá þeim sem hér stendur. Í kirkjujarðasamkomulaginu er kveðið á um að laun presta eða starfsmannafjöldi sé ákvarðaður að einhverju leyti, ekki að öllu leyti, út frá því hversu margir séu meðlimir þjóðkirkjunnar. Ókei, gott og vel. Nú liggur fyrir að meðlimum þjóðkirkjunnar hefur fækkað mikið, sama hvað okkur finnst um það. Mér finnst það sjálfum ekkert fagnaðarefni, mér er persónlega alveg sama. Mér finnst bara að trú- og lífsskoðunarfélög eigi að standa jafnfætis gagnvart lögum og fjármögnun. Flóknara er það ekki. Að öðru leyti er mér alveg sama hversu stór eða lítil hin og þessi trú- eða lífsskoðunarfélög eru, það kemur mér bara ekkert við. Ef mér er ekki sama um trúmál almennt fer ég bara sem almennur borgari út í samfélagið og rífst um trúmál á internetinu, ef ég kæri mig um. Það kemur mér ekkert við sem þingmanni í það minnsta. Það liggur fyrir að fækkað hefur í þjóðkirkjunni af ýmsum ástæðum. Hluti af því er að fólk er upplýstara um vísindalega hluti að mínu mati og þar af leiðandi dregur úr þörf á trúarlegum skýringum á því sem hægt er að útskýra öðruvísi. Það eru alls konar heimspekilegar stefnur að verða til og mótast og breytast sem líka hafa áhrif á það hvert fólk snýr sér til að leita að svörum við stóru spurningunum, eins og hver við erum og af hverju og allt þetta. Það er gróska í siðferðismálum, reyndar mjög víðtæk og mikil, í samfélaginu. #Metoo-byltingin er einkenni þess að siðferðisvitund fólks þroskast og breytist og þróast með tímanum þannig að fólk hefur fleiri tækifæri til að leita að siðferðislegum svörum annars staðar en hjá trúfélögum. Það er ekkert skrýtið að það fækki þjóðkirkjunni miðað við hvar við stöndum í mannkynssögunni. Óháð því er líka eðlilegt að það fækki einfaldlega vegna þess að það er fleira í boði. Það eru miklu fleiri kristnir söfnuðir í boði en verið hefur í gegnum tíðina, ef út í það er farið. Ég ætlaði ekki að fara út í svona miklar málalengingar á þessum stutta tíma en punkturinn er sá að nú eru að fæðast börn og hlutfall þeirra sem sjálfkrafa eru sett í þjóðkirkjuna er lægra en 50%. Og akkúrat þá er það sett inn í lögin að hætta að miða við fjölgun eða fækkun meðlima þjóðkirkjunnar.

Virðulegi forseti. Það skiptir máli. Það er einkenni þess að ríkið er að semja við þjóðkirkjuna á sama tíma og það ver hagsmuni þjóðkirkjunnar en ekki hagsmuni skattgreiðenda og borgara landsins. Ég er ósammála hæstv. dómsmálaráðherra um það hvað verið er að tala um (Forseti hringir.) vegna þess að ég er ósammála hæstv. dómsmálaráðherra um það hvað við erum ósammála um.