150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvarið og get svo sem alveg tekið undir það með honum að við séum að ræða viðbótarsamkomulagið. Við erum í sjálfu sér ekki að ræða innra starf kirkjunnar og það var ekki ætlun mín hér. Ég var einfaldlega að benda á mikilvægi þess að þeir hlutir gengju vel fyrir sig því að sjóðirnir eru þessum samfélögum mikilvægir, sérstaklega á landsbyggðinni. Ég held að það sé ekkert óeðlilegt við það að upp komi vangaveltur eða hugleiðingar úr þessum ræðustól sem fjalla um þessar breytingar, sem eru heilmiklar og koma til með að hafa áhrif. Það er ekkert óeðlilegt að maður nefni þá hluti, nefni að eðlilegt sé að þetta gangi vel fyrir sig, það sé gagnsæi og viðhöfð ákveðin ráðdeildarsemi þegar kemur að sjóðunum. Ég held að það sé fullkomlega eðlilegt að við ræðum þá hluti í því samhengi. En það er líka rétt að minna á að samningurinn um kirkjujarðirnar er ekki til endurskoðunar í nýja samkomulaginu þó að það hafi oft verið rætt hér. Hv. þingmaður hefur t.d. komið oft inn á það. Þá má kannski á móti spyrja hvort það sé ekki í raun og veru eðlilegt þegar hér er verið að ræða þetta samkomulag og þá grundvallarbreytingu að nú komi kirkjan til með að ráða sínum fjármálum sjálf og prestar verði ekki lengur ríkisstarfsmenn. Þessir hlutir tengjast. Vangaveltur um og vonir til þess að þeir hlutir gangi vel fyrir sig eru eðlilegar því að eins og ég segi eru þetta grundvallarbreytingar (Forseti hringir.) og mjög stórt skref í átt til sjálfstæðis kirkjunnar og sjálfræðis.