150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann að meta ýmsar vangaveltur hv. þingmanns, a.m.k. í fyrri hluta ræðu hans. Hv. þingmaður nefndi réttilega að Ísland væri ekki eina ríkið þar sem þetta þjóðar- eða ríkistrúarfyrirkomulag er til staðar. Það er rétt en það er hins vegar næstum því einsdæmi á meðal frjálslyndra lýðræðisríkja. Það er mjög dæmigert fyrir ófrjálslyndari samfélög. Til dæmis er mjög algengt í Norður-Afríku að þar sé þjóðtrú, nefnilega íslam, og það er t.d. í Marokkó, Egyptalandi, Líbíu og Sádi-Arabíu. Sem sagt í Miðausturlöndum og Norður-Afríku er þetta mjög algengt. Hins vegar þegar kemur að svokölluðum frjálslyndum lýðræðisríkjum sem við berum okkur helst saman við er þetta næstum því einsdæmi. Það er ekkert langt frá því. Það eru Noregur, Danmörk, Bretland, Ísland og Grikkland. Noregur er að fara að hætta þessu fyrirkomulagi. Síðan eru Liechtenstein, Mónakó, Malta og, síðast en ekki síst, auðvitað Vatíkanið. Af stærri ríkjum eru það bara Noregur, Bretland, Danmörk og Grikkland, þ.e. sem við köllum stórríki en sum þeirra upplifa sig reyndar sem smáríki. Þrjú af þessum ríkjum eru smáríki á íslenskan mælikvarða, Liechtenstein, Mónakó og Vatíkanið.

Bandaríkin eru ekki með ríkiskirkju, reyndar þvert á móti. Þau eru með ákvæði um þjóðkirkju en í ákvæðinu segir að ekki eigi að vera þjóðkirkja. Kanada er ekki með þetta, ekki Spánn, Portúgal, Frakkland, Þýskaland og Ítalía. Þetta eru samt lönd þar sem trúarbrögð ná alveg til fólks, fólk iðkar alveg sín trúarbrögð og heldur sín jól. Það stundar sitt hjálparstarf í sjálfboðaliðavinnu. Það er engin ástæða til að hafa sérstaklega þjóðkirkju til að halda uppi því góða starfi sem þjóðkirkjan heldur uppi. Hv. þingmaður sagði áðan að enginn væri neyddur til að fermast eða vera í kirkjunni. Það er alveg rétt en við erum neydd til að borga skatta — með réttu. Við erum neydd til að borga í sameiginlega sjóðinn og þegar það er þessi tiltekna trúarstofnun, hin ágæta, fína trúarstofnun, sem fær (Forseti hringir.) þessi aukaforréttindi umfram öll hin sem við fjármögnum líka að einhverju leyti, a.m.k. með sóknargjöldum, (Forseti hringir.) finnst mér það ósanngjarnt. Það er ekki slæmt að þjóðkirkjan sé fjármögnuð í sjálfu sér, (Forseti hringir.) það er slæmt að það sé gert í formi forréttinda yfir önnur trúfélög.

(Forseti (BHar): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörkin.)