151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þetta innlegg í umræðuna. Ég held að það sé mikilvægt. Við lásum um þessa viljayfirlýsingu á milli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, heilbrigðisráðherra og forstöðumanna spítalans. Lögð hefur verið áhersla á það, og ég tala nú ekki um í þeim kringumstæðum sem við höfum verið í, við mjög erfiðar aðstæður með viðkvæma starfsemi, að láta ekki uppsafnaðan halla, sem lögum samkvæmt flyst á milli ára, trufla neitt í starfseminni eða koma niður á þjónustu. Í þessari viljayfirlýsingu les ég það, eins og hv. þingmaður, að vilji sé til þess að þessi uppsafnaði halli trufli ekki neitt í starfseminni. Ég geri síðan ráð fyrir því að ef strika á út hallann þurfi að mæta því með framlagi og þá þurfi hæstv. heilbrigðisráðherra, og fleiri eftir atvikum eftir því sem nefndin kýs, að koma fyrir fjárlaganefnd og fjalla um hvernig eigi síðan að fara með þennan halla.

En ég fagna því hins vegar að hafa lesið þessa viljayfirlýsingu og að loksins séu aðilar — eins og lögin segja til um, af því að ráðherrann ber alveg skýrt ábyrgð á sínum málaflokki — að ræða við stofnanir sínar og finna út úr því hvernig taka megi á hlutum. En auðvitað verður Alþingi að eiga úrslitaatkvæðið í þessu máli eins og öðrum þegar kemur að fjárlögum.