151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er ansi mikill munur á 0,5 og 0,9%, það er næstum því tvöfaldur munur. Langmest af málefnasviði framhaldsskólanna er einmitt rekstur þeirra eins og þeir líta út. Ég er að leita í fjárlagafrumvarpinu sjálfu að þessu orðalagi, en þar er einmitt talað um málefnasvið framhaldsskóla. Það er erfitt að gera þetta svona í símanum á stuttum tíma í andsvari. En það er alla vega talað um málefnasviðið í heild sinni. Vissulega gæti það verið þannig að það sé einhver smáhluti af þessu málefnasviði utan framhaldsskólanna. En að það útskýri þennan mikla mun tel ég frekar ólíklegt. Ef aðhaldskrafan er ekki á framhaldsskólann og bara á þann hluta innan málefnasviðsins sem er með 2% þá er samt ólíklegt að það nái þessari upphæð. Eins og ég sagði þá bað ég um þessar upplýsingar í fjárlaganefnd og svörin sem við fengum útskýrðu ekki nægilega vel þá sundurliðun sem hv. formaður fjárlaganefndar talar um. Ég hef ekkert á móti því að þetta sé rétt og nákvæm upphæð og fagna því fyrstur manna ef sundurliðunin kemur, þá er hægt að reikna þetta rétt. En það er tiltölulega öruggt að upphæðin eins og hún er núna er ekki rétt.