151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[22:07]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið leggst Samfylkingin gegn þessu frumvarpi en tekur undir og leggur áherslu á mikilvægi þess að bregðast við vanda greinarinnar og hvetur því ríkisstjórnina til að mæta bændum frekar með fjárstuðningi og verja neytendur landsins fyrir verðhækkunum. Það eru röng viðbrögð í kreppu að koma í veg fyrir heilbrigða samkeppni með aðgerðum sem koma sér líka illa fyrir neytendur. Við í Samfylkingunni höfum verið fylgjandi opinberum stuðningi við landbúnaðarframleiðslu, en það er lykilatriði að þegar honum er komið fyrir raski það ekki samkeppni meira en nauðsyn krefur og tryggi bændum og neytendum hámarksávinning en ekki milliliðum.