152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

móttaka flóttafólks frá Úkraínu.

[15:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta nefnilega snýst ekki bara um að sýna samstöðu með Úkraínu heldur um leið að standa með gildum okkar um lýðræði, um frelsi, um mannréttindi. Við horfum upp á að það er núna alræðið gegn lýðræðinu, það er kúgun gegn frelsinu og gegn því erum við einmitt að berjast og þannig stöndum við saman. Ég er þeirrar eindregnu skoðunar að það hafi verið mikil gæfa okkar Íslendinga að eiga strax frá upphafi fulla aðild að NATO, Atlantshafsbandalaginu, og eiga líka aðild að kjarna Evrópusambandsins, þ.e. innri markaðnum, í gegnum EES-samninginn. Hvort tveggja hefur þjónað heildarhagsmunum okkar Íslendinga. Þegar við þurfum að standa vörð um hagsmuni okkar þá þurfum við að verja gildi okkar og þá stöndum við með Úkraínu. Þannig er það bara fyrir okkur í dag. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra að mér finnst skipta máli að ríkisstjórnin viti það að hún er með trausta bakhjarla í þingi þegar kemur að því að taka afgerandi afstöðu með fólkinu í Úkraínu, með lýðræðinu, með mannréttindunum, með frelsinu. Ég ætla að fá að sletta hér, virðulegi forseti: Slava Ukraini.