152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

mögulega aukin umsvif NATO á Íslandi.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að Ísland hafi ekki staðið undir þeim skuldbindingum sem koma fram í þjóðaröryggisstefnunni, eins og t.d. hvað varðar viðhald varnarmannvirkja, þá get ég upplýst hv. þingmann um að framlög til þeirra jukust um helming á síðasta kjörtímabili frá því sem var þegar hv. þingmaður leiddi hér ríkisstjórn, þannig að ég held að hv. þingmaður ætti að spara sér þessar miklu áhyggjur. Það breytir því ekki að mínar vonir eins og vonandi okkar allra standa til þess að ástandið í heimsmálunum þróist með þeim hætti að hér verði friðsamlegri horfur en ekki ófriðsamlegri. Grundvallarstefna minnar hreyfingar er að horfa til þess að við leysum þau mál sem við getum leyst með friðsamlegum hætti.

Hv. þingmaður spyr hér um olíu. Þá minni ég á þá skýru stefnu núverandi ríkisstjórnar og þeirrar síðustu að ráðast hér í orkuskipti því orkuskipti eru ekki bara umhverfismál, ekki bara loftslagsmál, ekki bara efnahagsmál heldur eru þau líka þjóðaröryggismál því að þau snúast um það að við getum verið öðrum óháð um orku. (Forseti hringir.) Þegar við horfum til þess hvað er rétta skrefið að taka núna þá er það ekki að hefja olíuleit í landhelginni til að bregðast við (Forseti hringir.) heldur einmitt að flýta orkuskiptum og ná um leið loftslagsmarkmiðum okkar.