152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála.

294. mál
[16:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir innlegg hv. þingmanna í þessa umræðu og fyrir svör forsætisráðherra. Ég verð að viðurkenna að það hryggir mig eilítið að grænbókarferlið skyldi hafa strandað með þessum hætti. Ég geri mér grein fyrir að það skiptir máli að taka þessa umræðu á vettvangi þjóðhagsráðs. En hitt er ferli þar sem verið er að safna hugmyndum og álitamálum og reyna að búa til samstöðu um framtíðina og það er miður ef við getum ekki unnið þannig. Ég vona að hæstv. forsætisráðherra beiti sér fyrir betra samtali við verkalýðshreyfinguna um það, m.a. vegna þess að það er risastór kjaralota fram undan á næsta eina og hálfa ári, kannski tveimur árum, og hana þarf að undirbúa. Hér er vísað til kjaralíkansins eða vinnumarkaðslíkansins í nágrannalöndunum. Þar virðist fólk bæði kunna á klukku og dagatal og þar er unnið eftir ákveðnum föstum leikreglum sem er ekkert mjög flókið að koma sér saman um. En það þarf auðvitað að koma sér saman um þær. Ég veit að fulltrúar launafólks hafa kannski ekki alveg sömu hugmyndir um það og fulltrúar atvinnurekenda en þá skiptir einmitt svo miklu máli að koma fólki saman í samtalið og finna leiðina í gegn af því að úrlausnarefnin sem bíða okkar eru fjölmörg, ekki bara — sem er ekkert bara — að semja um kaup og kjör fyrir öll stéttarfélög í landinu. Við erum með húsnæðismálin, risavaxið velferðarmál sem er í fullkomnu óefni og komið hefur fram í máli forseta ASÍ að er aðalmálið fyrir komandi kjaraviðræður. Við erum t.d. með lífeyrismálin og lífeyristökualdur á borðinu sem þarf að ræða og verður að takast í almennu samtali á milli aðilanna. Við eigum ólokið verkefnum eins og því mikilvæga verkefni sem fylgdi samningnum um jöfnun lífeyrisréttinda á milli almenna og opinbera markaðarins, að jafna kjör milli markaða. Allt þetta hefur legið í láginni allt of lengi og ég vil brýna forsætisráðherra til að setja þessi mál á dagskrá.