152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála.

294. mál
[16:02]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er náttúrlega ekki hægt að koma hér upp og tala um þessi mál hafi legið í láginni því að eins og ég fór hér yfir þá hefur þjóðhagsráð verið mjög virkt og raunar má segja að síðasta ríkisstjórn og sú sem nú situr hafi beitt sér af mjög miklum krafti í vinnumarkaðsmálum. Ég get talið það upp: Hér var lagt niður kjararáð, hér var stofnuð kjaratölfræðinefnd, hér var endurskipað þjóðhagsráð með útvíkkuðu hlutverki. Gefin var út mjög yfirgripsmikil yfirlýsing í tengslum við lífskjarasamninga, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, þar sem boðaðar voru aðgerðir og við þær staðið velflestar. Ég get nefnt húsnæðismálin. Þriðjungur þeirra íbúða sem byggður var nýr hér í fyrra og hittiðfyrra kom til vegna aðgerða stjórnvalda, þ.e. með auknum stofnframlögum við almennar íbúðir og nýjum hlutdeildarlánum. Ég get rætt hér um lengingu fæðingarorlofs, ég get rætt um þriggja þrepa skattkerfi o.s.frv. Allt sprettur þetta m.a. úr samtali stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins.

En stjórnvöld smíða ekki nýtt vinnumarkaðslíkan. Það gera aðilar vinnumarkaðarins og hv. þingmaður, sem fyrrverandi formaður heildarsamtaka launafólks, þekkir mjög vel tregðu verkalýðshreyfingarinnar sérstaklega til að koma inn í samtalið um grænbókina. Við verðum bara að segja þá hluti eins og þeir eru. Þar var gríðarleg tregða hjá heildarsamtökum launafólks og það er þannig að samtal verður að eiga sér stað með vilja þeirra sem taka þátt í því. Ég þvinga engan til samtals. Ég hef hins vegar á vettvangi þjóðhagsráðs sett þau mál á dagskrá sem stjórnvöld vilja ræða, sem verkalýðshreyfingin vill ræða, sem atvinnurekendur vilja ræða, og ég hef ekki gefist upp á því samtali, aldrei nokkru sinni. Það þekkir hv. þingmaður mjög vel frá sinni fyrri tíð. Ég trúi því einlæglega að öflugt samtal þessara aðila sé liður í öflugu samfélagi og hluti af öflugri samfélagsgerð er sterk verkalýðshreyfing, gott samtal aðila vinnumarkaðarins við stjórnvöld og þetta mikilvæga samspil sem ég nefndi hér áðan um velferðarkerfi og vinnumarkaðslíkan. Ég hef ekki gefist upp á því samtali þótt ég taki það kannski í auknum mæli á öðrum vettvangi en til stóð þegar til grænbókarvinnu var stofnað.