152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni.

218. mál
[16:32]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Þetta er stórt og mikilvægt mál og mikilvægt að halda uppi umræðu um það. Ástæðan fyrir því að farið var að tala um Hvassahraunsflugvöll á sínum tíma var sá möguleiki að hægt væri að stækka hann upp í fullbyggðan alþjóðaflugvöll. Það er grunnforsendan, að þetta haldist í hendur, þú byggir innanlandsflugvöll og getur síðan stækkað hann upp í alþjóðaflugvöll. Það er forsendan fyrir því að farið var að ræða um Hvassahraun á sínum tíma. Bessastaðanesið — sú hugmynd datt út vegna þess að ekki var hægt að stækka hann upp í alþjóðaflugvöll. Þess vegna datt hann út. En sem innanlandsflugvöllur er það möguleiki sem hefur í sjálfu sér aldrei verið skoðaður vegna þess að honum var hafnað í ákveðnu ferli í öllu þessu. Það verður að halda svolítið tímalínunni og samhengi hlutanna. Jafn góður eða betri kostur en Vatnsmýrin — það þekkjum við og við eigum eftir að fá niðurstöðuna. Þessi 15–20 ár, eins og hæstv. ráðherra kemur inn á, eru þekkt vítt og breitt um hinn vestræna heim í svona ferli þannig að ein mínúta í svona máli er stuttur tími.