Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

Störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram hörð gagnrýni ríkissaksóknara á misbresti bæði á skráningum og tilkynningum vegna eftirlits lögreglu með borgurum. Sem dæmi má nefna símhlustun og skyld úrræði og kemur m.a. fram að verulega skorti á að lögreglustjórar og héraðssaksóknari fylgi lögum og fyrirmælum um tilkynningar til sakborninga, eyðingu hlustunargagna og að halda skrá um þá sem hafa haft aðgang að upplýsingum sem aflað hefur verið með eftirliti með borgurunum.

Ég sé því fullt tilefni til þess að fara hér yfir sögulega langan fyrirvara þingflokks VG við breytingar á lögum um lögreglu, með leyfi forseta:

„Að mati þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er það til marks um styrk samfélagsins og Íslands sem réttarríkis að það heyrir til algerra undantekninga að lögreglan þurfi að beita vopnavaldi. Þannig hefur hingað til ekki þótt ástæða til að almennir lögreglumenn beri á sér skotvopn við skyldustörf. Til mikils er að vinna fyrir samfélagið allt að svo megi áfram vera. Ekki er lögð til efnisbreyting á lagaramma um vopnaburð lögreglu í frumvarpinu en þó telur þingflokkurinn rétt að nýta tilefnið til að árétta þá afstöðu að vopnaburður lögreglu skuli ekki verða almennur hér á landi og að slíkt beri að forðast í lengstu lög. Þingflokkurinn vill að nefndin skoði hvort ráðherra beri að hafa samráð við Alþingi áður en slíkar reglur eru settar. Einnig telur þingflokkurinn ástæðu til að árétta að þótt gert sé ráð fyrir að lögregla hafi eftirlit með einstaklingum eða hópum til að sporna við skipulagðri brotastarfsemi eða ógn við öryggi ríkisins eða almennings skuli lögregla ætíð gæta hófs við beitingu slíkra rannsóknaraðferða. Þeim skuli aðeins beitt þegar það telst nauðsynlegt og aldrei gengið lengra en raunverulegt og rökstutt tilefni er til. Almennar grundvallarreglur um meðalhóf við framkvæmd löggæslu koma fram bæði í lögreglulögum og lögum um meðferð sakamála og þeirra skal gætt vandlega við beitingu þeirra rannsóknaraðferða sem frumvarpið leggur til. Þá er þeirri ábendingu (Forseti hringir.) beint til allsherjar- og menntamálanefndar að skoðað verði hvort rétt sé að takmarka beitingu slíkra rannsóknaraðferða við þau tilvik þegar grunur er um brot sem kunna að varða alvarlegri refsingu að lögum.“