Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Það er ekki annað hægt hér við þessa umræðu en að byrja á að reyna að draga upp stóru myndina eins og hún blasir við. Það er auðvitað sérstakt afrek að hér sé verið að setja Íslandsmet í útgjaldaaukningu á milli ára, bæði þegar horft er til aukningar í milljörðum talið og hlutfallslegrar aukningar. Það er auðvitað þannig að það verður að taka tillit til þeirra einskiptisútgjalda sem féllu til á liðnu ári og voru sérstaklega tilgreind þá vegna Covid sem ekki er til að dreifa núna. Þegar það hefur verið gert þá erum við að horfa á rúmlega 180 milljarða útgjaldaaukningu á milli ára. Það var haft á orði að menn hefðu ekki reiknað með viðlíka óráðsíu og sést hér hinum megin Vonarstrætisins í fjármálum Reykjavíkurborgar, en skömmu síðar mætti hæstv. fjármálaráðherra með fjárlagafrumvarpið við setningu Alþingis og kynnti það sem strax blasti við, sem er gríðarlega mikill útgjaldaauki. Það var ekki nóg heldur er síðan bætt mjög í og mér sýnist þetta vera í heildina um 53 milljarðar sem bætast við milli umræðna. Það er tala sem ég held að sé fordæmalaus þegar fjárlög eru afgreidd með hefðbundnum hætti, aukningin á milli umræðna. Það er ekki útilokað að menn hafi komist að raunvirði nærri þessu við afgreiðslu fjárlaga árið 2008 en mér er það samt til efs án þess að hafa rannsakað það sérstaklega.

Þegar svona hátt er reitt til höggs verður auðvitað að skoða með hvaða hætti það spilar saman fjárlög hins opinbera, fjárlög ríkisstjórnar hverju sinni, og þau markmið sem verið er að reyna að ná fram í gegnum peningastefnu og samspil ríkisfjármála og Seðlabanka. Því var haldið fram af formanni fjárlaganefndar í andsvari við ræðu hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, framsögumanns meiri hluta nefndarálits fjárlaganefndar, að sérstaklega væri horft til þess að vinna með peningastefnunni. Ég ítrekaði spurningu mína í seinna andsvari og áfram fullyrti formaður fjárlaganefndar að það væri verið að vinna með peningastefnunni. En svo sér maður viðtal við seðlabankastjóra í dag undir yfirskriftinni „Hefur þungar áhyggjur af útgjöldum ríkisins“, þar sem hann segir m.a., með leyfi forseta, þegar spurt er um útgjaldaaukann:

„Við erum ekki hrifin af því, þetta gerir okkar verk erfiðara. Aukin ríkisútgjöld á þessum tíma hafa ekki jákvæð áhrif á verðbólgu. Þetta mun mögulega hægja á því að við náum verðbólgu niður.“

Þetta segir seðlabankastjóri í samhengi við það sem nú liggur fyrir, fjárlögin sem lögð voru fram í september og þær breytingartillögur sem liggja frammi núna sem eru að meginhluta til komnar frá fjármálaráðherra eins og upplýst hefur verið þó að nefndin sjálf hafi gert lítils háttar breytingar þar til viðbótar.

Ég verð að rifja upp umsögn Seðlabankans frá 7. október 2022 sem seðlabankastjóri Ásgeir Jónsson skrifar undir þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi nýlegrar þróunar verðbólgu telur Seðlabankinn brýnt að ekki verði vikið frá því að aðhaldi í ríkisfjármálum verði beitt á næstu misserum. Með því geta ríkisfjármálin lagst á sveif með Seðlabankanum í baráttunni við verðbólgu og dregið úr þörf vaxtahækkunar.“

Það hljómar allt mjög eðlilega og skynsamlega sem sett er fram í umsögn Seðlabankans um fjárlögin. En síðan í dag, eftir fyrsta dag í 2. umr. um fjárlög ríkissjóðs, sér seðlabankastjóri ástæðu til að lýsa því yfir að hann hafi þungar áhyggjur af útgjöldum ríkisins, enda er þetta alveg fordæmalaust staða. Fjármálaráðherra til hróss hefur hann haft þá ímynd á sér að vera samviskusamur fjárhaldsmaður húsfélagsins, hefur reynt að passa upp á hagsmuni ríkissjóðs í hvívetna á lengstum, þótt vissulega, eins og eflaust á við um alla sem sitja í því embætti, hafi hann farið út af beinu brautinni af og til hvað varðar vörn fyrir ríkissjóð eða skattgreiðendur, en svona ofboðslega útgjaldaaukningu milli ára — það skal engan undra að þetta orsaki það að seðlabankastjóri sé aðeins hugsi með stöðu mála því að Seðlabankinn er skilinn eftir algjörlega einn úti á berangri þegar staðan er með þessum hætti. Það er bara eins og seðlabankastjóri lýsir í þessu viðtali, með leyfi forseta, þegar spurt er: Hefur ekkert verið rætt við þig eða aðra í Seðlabankanum um möguleg áhrif hærri ríkisútgjalda?:

„Nei. Ég veit ekki hvað við getum gert í því, ég hef lagt fram hvatningu bæði við þing og stjórn um að ná fram aðhaldi.“

En niðurstaðan er sú að setja Íslandsmet í útgjaldaaukningu á milli ára. Seðlabankastjóra og Seðlabankanum er því nokkur vorkunn að standa frammi fyrir þeirri stöðu sem nú er uppi. Fyrir okkur sem sinnum hér þingstörfum þá held ég að við verðum að setja þessa hluti í samhengi. Við verðum að átta okkur á þeim áhrifum sem fjárlög hafa eins og þau liggja fyrir núna með nefndum breytingartillögum, því að það er svo oft sem við erum í þeirri stöðu að aðgerðir stjórnvalda vinna beinlínis gegn yfirlýstum markmiðum. Það getur ekki verið markmiðið. Það getur bara ekki verið það. Ég held því að við verðum með einhverjum ráðum að reyna að ná samhengi hlutanna, átta okkur á áhrifunum, reyna raunverulega að vinna með þeirri peningastefnu sem liggur fyrir. Þegar hv. þm. Bjarkey Olsen lýsti því hér í gær að verið væri að vinna með peningastefnunni og svo les maður svör seðlabankastjóra í morgun þá getur maður ekki annað en spurt sig: Bíddu, eru margar peningastefnur gangi? Er Sjálfstæðisflokkurinn með sjálfstæða peningastefnu? Er Vinstrihreyfingin – grænt framboð með sjálfstæða peningastefnu? Eru Píratar með sjálfstæða peningastefnu? Eflaust reyndar, en hún ekki formfest. Það hlýtur að vera ein peningastefna í gangi og það er alveg ljóst að þau áhrif sem framkallast hér með þessum fjárlögum og breytingartillögum eins og þær liggja fyrir styðja ekki við peningastefnuna sem hefur það að meginmarkmiði að ná niður verðbólgu. Eins og seðlabankastjóri sagði: Aukin ríkisútgjöld á þessum tíma hafa ekki jákvæð áhrif á verðbólgu.

Þetta gengur gegn markmiðinu sem er sett fram í þeirri einu peningastefnu sem ég a.m.k. veit til að sé stefna stjórnvalda. En það er þá bara fínt ef það kemur fram að þær séu margar. Það er eflaust þannig í einhverjum ríkjum sem við viljum ekki bera okkur saman við. Ég held að það sé hollt ef vitum hvert markmiðið er, hvert við stefnum og hvernig við ætlum að komast þangað en ég er hræddur um að það sem kemur fram hér og í breytingartillögum muni ekki auðvelda okkur leiðina að því marki.

Ég hef aðeins verið hugsi yfir hlutverki og þróun verkefna og starfa fjárlaganefndar nú þegar lög um opinber fjármál eru komin með einhverja reynslu, nokkra reynslu. Ég hef ekki gert sérstaka rannsókn á því en mér er það til efs að á fyrri stigum hafi rétt um 95% þeirra breytinga sem gerðar eru á milli umræðna komið frá fjármálaráðherra sjálfum. Mér sýnist það vera rétt um 51 milljarður sem kemur fram í gegnum tillögur fjármálaráðherra, rúmir 2 milljarðar í gegnum tillögur nefndarinnar, eða tæpir 3, 2,7 milljarðar. Rétt um 5% af þessum breytingum öllum koma fram í gegnum nefndina. Þarna sitja nefndarmenn dagana langa og slást um atriði hvert á fætur öðru og 5% af breytingunum á milli umræðna koma fram í nefndinni.

Ég kasta þessu bara fram hér til umhugsunar því að við hljótum með einhverjum hætti að geta formað verkefnin þannig að þessi vel mannaða nefnd, sem hún er hverju sinni, skilji meira eftir til að bæta nýtingu skattfjár, þ.e. að fá meira fyrir minna, kafi ofan í þætti og tryggi að við séum að gera okkar besta og höfum gögn sem auðvelda okkur að glöggva okkur raunverulega á stöðunni, því að þeir þingmenn sem ekki sitja í nefndinni, sem er auðvitað mikill meiri hluti þingmanna, hafa nokkuð gagn af þeirri vinnu sem þar er unnin og er mjög mikilvæg. En ég velti því aftur fyrir mér hvort við séum ekki á rangri leið þegar 95% af þeim breytingum sem gerðar eru koma frá ráðherranum sjálfum, ráðherranum sem leggur við þingsetningu fram eiginlega bók sem rammar inn sjónarmið hans, hátt í 400 blaðsíður, og síðan kemur viðbótin á milli umræðna — 95% af heildinni.

Ég ætla að láta þetta duga um þennan þátt málsins en mig langar samt hvað normið varðar að nefna hér eitt til viðbótar sem mér þykir löstur á umræðu um meðferð skattfjár. Það virðist oft vera þannig að þingmönnum þyki það ekki boðleg umræða að verið sé að etja saman málaflokkum, útgjaldaliðum. Menn fyrtast við þegar sagt er: Ja, ef við gerum þetta þá getum við ekki gert hitt. En auðvitað er það þannig í raunveruleikanum að þeir peningar sem eru settir í einn málaflokk verða ekki notaðir í annað. Það er mögulegt að koma sér undan þessu með lántökum tímabundið, en þegar við horfum yfir lengri tíma þá er það bara þannig að hver króna verður notuð einu sinni, ekki oftar. Ég held að við ættum að temja okkur það, það getur verið erfiðara í umræðunni og rökræðunni en við erum alltaf að segja þegar við leggjum til útgjöld til eins málaflokks: Heyrðu, það verður minna til skiptanna í hina. Þetta er bara almenn athugasemd sem ég vildi skilja hér eftir.

Síðan er auðvitað annað ef við förum í efnisatriði frumvarpsins, sem verða auðvitað hverfandi breytingar á, ef nokkrar, hér eftir frekar en í annan tíma sem mál klárast í gegnum 2. umr., þá er það eins og stundum vill verða að aðgerðir stjórnvalda endurspegla ekki yfirlýst markmið. Bara til að nefna dæmi úr nýlegum fréttum þá fjölgar sem aldrei fyrr í þeim hópi sem er áætlað að verði sendur til útlanda í liðskiptaaðgerðir. Ég sé að það er vel mannað úr nefndinni hér í salnum og spyr því: Hvað ætlar ríkisstjórnin að taka sér mörg ár í að laga þetta? Ríkisstjórnin er nýbúin að fagna fimm ára starfsafmæli sínu. Þarf ríkisstjórnin níu ár? Tekst þetta á þriðja kjörtímabili eða er von til þess að þetta verði lagað áður en kjörtímabilið er búið? Það er talað um markmið um orkuskipti í samgöngum. Við getum gripið niður hvar sem er í umræðum varðandi þá sem mest skrá af nýorkubílum, sem eru auðvitað umboðin og bílaleigurnar: Allir telja að þær breytingar sem verið er að gera gangi gegn þeim markmiðum sem yfirlýst eru. Ég held að þetta blasi við öllum þeim sem horfa á þetta og setja ekki kíkinn fyrir blinda augað. Þá kemur upp sjónarmiðið: Bíddu, heyrðu, eigum við að vera veita einhverju ríku fólki í Garðabæ ríkisstuðning í þessum efnum? man ég að umræðan var hér í fyrra frekar en í hittiðfyrra. Ég held að bílaleigurnar séu ekkert mikið að leigja sína bíla í Garðabæ, póstnúmeri 210, frekar en önnur. Heildarmyndin verður einhvern veginn að ganga upp og þetta tengist auðvitað því sem ég fór töluvert inn á hér í ræðu minni um sama mál í fyrra, þessa furðulegu útfærslu á skattstyrkjum, sem ég gef mér að hv. þm. Haraldur Benediktsson ætli að spyrja mig út í andsvari hér á eftir, við eigum það inni. Þingmaðurinn hristir hausinn. Ágætir áheyrendur verða af þessu skemmtilega samtali. En það er svo víða í fjárlögum og þeim skilaboðum sem koma frá stjórnvöldum, ítreka ég, atriði sem stangast á við yfirlýst markmið. Ég held að ég sé ekki að þreyta þingheim með einhverri dæmaupptalningu. Ég vil bara skilja þessi atriði hér eftir og vona að við tökum þau til umhugsunar gagnvart þessari vinnu næsta ár. Ég ber mjög hóflega von í brjósti um að miklar breytingar verði gerðar á málinu frá því sem nú liggur fyrir til lúkningar þess, en vil bara undirstrika aftur varnaðarorð seðlabankastjóra sem koma fram í viðtali í morgun, að við séum hér á þingi ekki að gera Seðlabankanum auðveldara fyrir að slást við verðbólguna, sem hlýtur að vera meginmarkmið okkar núna.