Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að vera pínu bjartsýnn, sérstaklega af því að efnahagssveiflan kom aðeins fyrr í plús en var gert ráð fyrir, og segja að ég held að við munum vera komin úr mínus fyrir árið 2027. Nákvæmlega hvenær er erfitt að segja en ég ætla að leyfa mér að vera jákvæður. Vandinn er samt að efnahagsstefna og ríkisfjármálin eru keyrð á undirliggjandi halla, samkvæmt síðasta mati fjármálaráðs 2,5% af vergri landsframleiðslu, þ.e. aukalega er halli sem er bara ófjármagnaður. Það er ekkert gert í fjárlögum eða fjármálaáætlun eða neinu svoleiðis til þess að reyna að bregðast við því. Það þýðir bókstaflega að við þurfum að stóla á þann hagvöxt sem er í gangi og að hann sé meiri en ella. Það eykur á móti verðbólguþrýstinginn út af þessum aukaútgjöldum eða þýðir minni skattheimtu, sem myndi tappa aðeins af. Ég er búinn að vera að reyna aðeins að útskýra hérna hvernig við festumst oft bara í heildarafkomunni. Það er pínulítið yfirborðskennd umræða en hún ætti að gefa okkur vísbendingar um ákveðna annaðhvort galla eða kosti í kerfinu. Núna er hún tvímælalaust af veifa rauðum flöggum um að það séu gallar sem þarf að bregðast við einhvers staðar inni í stóru summunni. Nákvæmlega hvar fáum við ekki að sjá frá stjórnvöldum, hvar eigi að bregðast við að þeirra mati. Þau gefa einfaldlega út tóman tékka þar og gera ekki neitt. Þá er náttúrlega áframhaldandi neyðarástand, 2,5%, sem við þurfum að vona að efnahagssveiflan reddi okkur yfir en kostnaðurinn við það er verðbólga fyrir alla hina.