Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir ræðuna þar sem hann fór ítarlega yfir, m.a. hversu erfitt það er fyrir fyrstu kaupendur að komast inn á markaðinn eins og hann hefur verið undanfarin misseri og ár raunar. Sú mynd sem hv. þingmaður dró upp áðan passar vel við orð seðlabankastjóra sem hefur ítrekað sagt að efnislega mestar áhyggjur hans snúi að þeim sem ekki séu komnir inn á fasteignamarkaðinn því að það er auðvitað þannig að eftir að þú ert kominn inn ertu að aðlaga þig í stærð upp eða niður eftir breytingu á fjölskylduhögum og hefur þá notið hækkunar eða lækkunar eftir atvikum í hlutfalli við stærð eignar fyrir og eftir. En það er þetta eilífðarvandamál sem snýr að heildarframboði og sérstaklega lóðaframboði. Ég hef nú á tilfinningunni að við verðum dálítið föst í þessu fari að kenna hver öðrum um hvað veldur á meðan það er ekki nægt lóðaframboð af fjölbreyttum lóðum fyrir hina ýmsu byggingarmáta og eignarhald, hvort sem það er í einkaeign og notað af eiganda eða leiguíbúðir, hvað sem vera skyldi. Ég held að við séum á þeim stað að við verðum í vandræðum með þetta þangað til lóðaframboð er nægjanlegt til þess að fullnægja bæði þörfum markaðarins og þörfum og getu verktaka til að byggja upp. Ég held að hvatinn til að liggja með lóðir hjá verktökum verði hverfandi ef það er nóg af lóðum fyrir aðra verktaka að byggja á og þannig myndist jafnvægi hvað varðar eðlilegt verð miðað við undirliggjandi framkvæmda- og byggingarkostnað. Telur hv. þingmaður að það sé í raun einhver önnur leið fær (Forseti hringir.) til að finna þetta jafnvægi heldur en yfirdrifið lóðaframboð (Forseti hringir.) sem slær á hvatann til að hægja á uppbyggingu tiltekinna reita?