Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:54]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er aftur alveg sammála hv. þingmanni. Ég held að við þurfum bara að koma saman við ríkisstjórnarborðið, við leysum þetta, getum gert það tveir. Það var einmitt undirtónninn í ræðu minni áðan þegar ég var að tala um hvernig við gætum nýtt fjármunina betur í félagslega kerfinu og heilbrigðiskerfinu og það sem ég hef oft talað um og hef haldið ræðu um hér í þessum ræðustól, þ.e. frelsi til úrræða. Ég vil bara draga úr þessum greiningum. Það þarf ekki að senda öll börn í greiningar. Foreldrarnir eiga að fá að taka ábyrgð á sínum börnum, það á að treysta foreldrunum til að vita hvað er barninu fyrir bestu. Það er fullt af öflugu fólki sem er með alls kyns úrræði til að hjálpa, heilbrigðismenntuðu fólki og félagslega menntuðu fólki og fagmenntuðu fólki sem hefur úrræði að bjóða, en þau fá bara ekki að veita fólki úrræði af því að það vantar samninga um það, það vantar greiningar og annað slíkt. En ég vil bara taka greiningarnar og gefa þeim frelsi til að veita úrræðin og þá hverfa þessir biðlistar.