Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[21:57]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Tómasi A. Tómassyni, 9. þm. Reykv. n., fyrir svarið. Það gleður mig afskaplega mikið að heyra að hann haldi að afglæpavæðing vörsluskammta vímuefna sé ekki galin hugmynd. Ég er búin að vera hér í allt kvöld að spyrja fólk út í þeirra skoðun og tengja þetta við fjárlögin og fjárveitingu til lögregluyfirvalda, hvort þau styðji afglæpavæðingu neysluskammta, og það hefur ekki ein manneskja svarað neitandi varðandi stuðning við afglæpavæðinguna. Ég vona bara að ég sjái þennan stuðning hér í þingsal þegar það verður vonandi greitt atkvæði um þetta frumvarp, vonandi á þessu löggjafarþingi, við sjáum til hvernig það verður. En aftur að Robert Downey Jr., þú komst með góðan punkt þarna. Sex ár í fangelsi fyrir það eitt að vera háður vímuefnum. Þetta er náttúrlega bara sjúkdómur, forseti, þetta er ekki neitt annað og það eru fjölmargar rannsóknir sem hafa sýnt fram á það. Það er úrelt hugmyndafræði að vera að refsa fólki fyrir sjúkdóm sem það hefur enga stjórn á, heldur ætti að vera að beina fólki í rétta átt. Mér væri ekki refsað ef ég væri með líkamlegan sjúkdóm, eitthvað sem byrjar t.d. í hjartanu eða í heilanum eða í taugakerfinu í stað þess að vera með einhvern svona sjúkdóm, andlegan sjúkdóm. Við getum náttúrlega rakið söguna um stríðið gegn vímuefnum alla leið aftur til 1980, eða eitthvað, þegar Ronald Reagan og lýsti yfir stríði gegn vímuefnum og eiginlega allur heimurinn tók undir það. Þaðan held ég að þessi úrelta hugmyndafræði komi. En til þess að fara ekki of langt frá umræðuefninu sem ég kom hér til að ræða þá langar mig bara að þakka hv. þm. Tómasi A. Tómassyni fyrir gott og hnitmiðað svar.