Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:06]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Gísli Örn Ólafsson, takk fyrir spurninguna. Ég ímynda mér að þeir sem taka þessa ákvörðun viti raunverulega af vandanum en þetta snertir þá ekki beint þannig að þetta er bara áreiti og þeir hafa aðstöðu til þess að líta aðeins til hliðar og segja: Jú, jú, við erum búnir að setja hérna sko — og það sem heyrist svo oft hérna í þessum sal þegar verið að tala um að það vanti svo og svo mikið á haus eins og sextíuþúsundkall og það séu 6.000 einstaklingar sem ekki fá og hefðu átt að fá og svoleiðis, þá kemur alltaf þetta svar: Jú, við settum 100 milljónir í þetta og við settum 200 milljónir í hitt og við erum búnir að gera heilmikið. En ef það er ekki nóg þá er það ekki nóg. Það verður að bæta við. Það er bara svoleiðis. Ég líki stundum vímuefnavanda, alkóhólisma, við sykursýki. Til að halda sykursýki í skefjum sprautar maður sig með insúlíni. Ég segi ekki allir en flestir sykursýkisjúklingar fá sér insúlín og það þýðir ekkert að segja við þá: Því miður, ég veit að þú átt að fá 1 mg á dag en það er ekki til nema hálft. Þú verður bara að láta það duga. Þér verður bara að líða illa helminginn af deginum, eða eitthvað. Þannig eru svörin sem við fáum í dag. Menn komast upp með að segja: Nei, sorrí — afsakið orðbragðið — það er ekki til peningur. Ég ræð ekki við þetta.