Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þá værum við að brjóta lög. Bara svo það sé sagt. Ef þú samþykkir tillöguna án þess að fyrir liggi breyting um RÚV þá er það bara brot á lögum. Það er ekki hægt að samþykkja þessa tillögu fyrst og leggja svo fram frumvarp. Mér fannst það koma mjög skýrt fram á fundi nefndarinnar í morgun hvernig í pottinn er búið með þetta mál. Það var búið að viðra þetta og ræða þessi mál fram og til baka og velta ýmsu upp og þess vegna ákvað ég að boða til fundar um þetta sérstaklega. Mér fannst vera mjög skýrt kveðið á um þetta og hvernig lá í þessu öllu saman og það var eiginlega þess vegna sem ég spurði hv. þingmann af því að ég hélt í einfeldni minni að hann myndi draga tillöguna til baka í ljósi þeirrar umræðu, af því að hv. þingmaður er löglærður maður og hlýtur að átta sig á því að það er ekki hægt að samþykkja þetta og brjóta lög, ganga gegn því og ætla svo að breyta lögum eftir á í þessu samhengi. Og svo spyr ég: Ef hann myndi reyna að fara þessa leið samt sem áður, telur hann sig vera með stuðning við þessa breytingu sem þyrfti til á lögum um Ríkisútvarpið?