Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[23:34]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er sammála þingmanninum. Ég nefndi það svo sem í ræðu minni í upphafi. Mér þykir skrýtið að þetta sé svona. Mér finnst ég vera búinn að upplifa það í allt haust að það var einhver stífla, það bara gerðist lítið. Við eigum von á því að stjórn hvers tíma komi með stjórnarfrumvörp en þau komu bara ekkert og það var þannig líka með fjárlagafrumvarpið. Tillögurnar komu ekkert. Hvernig á því stendur veit ég ekki og mér þykir það furðulegt að ekki sé hægt að koma með þetta. Það eru ráðuneyti á bak við þessa málaflokka. Hvað er þá verið að gera? Ég átta mig ekki alveg á því af hverju þetta þarf að vera svona. Við byrjum í september. Eigum við ekki að geta farið langt með vinnuna í október, nóvember og verið nokkuð klár með þetta í endaðan nóvember í staðinn fyrir að vera á síðustu metrunum eins og hér er verið að benda á? Það koma tugir milljarða á milli umræðna inn í frumvarpið. Það fær enginn að sjá þetta. Það fær enginn að vita þetta, það veit enginn um álit meiri hluta sem leggur þetta fram. Ég þekki það bara núna úr efnahags- og viðskiptanefnd, fleiri þingmenn í salnum eru líka staðsettir þar, það á líka að leggja álit fram samhliða fjárlagafrumvarpi. En við erum ekki farin að sjá neitt. Þetta eru kúnstug vinnubrögð, kostuleg vinnubrögð sem ég vil hvetja til þess að verði breytt. Kannski er þetta bara meðvitað, kannski er verið að gera þetta þannig að minni hlutinn hafi ekki neitt um málin að segja eða geti ekki brugðist við. Ég veit ekki hver tilgangurinn er, en það er ótækt að hafa þetta svona.