Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er augljóslega ekki ætlunarverk þessara fjárlaga að verja lægri tekjutíundir fyrir áhrifum verðbólgunnar. Mér er einmitt minnisstætt svar hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn formanns flokks hv. þingmanns, hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur, þegar hún var spurð hvers vegna hún veldi að fara í þessar krónutöluhækkanir yfir línuna í staðinn fyrir að gera t.d. eins og við í hv. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar ætlum að leggja til, að hækka fjármagnstekjuskatt. Svarið sem kom var einhvern veginn: Ja, ég hef áður hækkað fjármagnstekjuskatt. Og hvað var hitt aftur? Það er alltaf ákveðin endurtekning hjá hæstv. forsætisráðherra. Hún fer alltaf að tala um allt sem hún hefur áður gert til að svara beinum spurningum um það sem hún er að fara að gera. Það er mjög algengt. Já, hún talaði líka um þessa 20.000 kr. eingreiðslu sem barnafólk fékk hérna í vor og að það væri einhvern veginn nóg til að afgreiða það að þessar krónutöluhækkanir munu hafa miklu víðtækari og sterkari áhrif á tekjulægri hópa en tekjuhærri. Þetta er ákveðinn hringur sem við lendum alltaf í þegar við erum að reyna að rökræða, sérstaklega við ráðherra og alveg sérstaklega við hæstv. forsætisráðherra. Við spyrjum: Hvers vegna ertu að fara að gera þetta? Og viðkomandi segir: Ja, ég er nú búinn að að gera alls konar annað áður og þess vegna skiptir engu máli að ég sé að gera þetta. En auðvitað er það stór spurning: Hvers vegna er valið að fara þessa leið, að hækka krónutölugjöld frekar en einmitt að sækja peningana þar sem bökin eru breiðust? Það er ákveðin pólitík í því og hún sést auðvitað best á því að ríkasta fólkið þarf ekki að bera þungar byrðar af þessum fjárlögum á meðan fólk í lægri tekjutíundunum þarf vissulega að gera það.