Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:54]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég ætla að ítreka fyrri punkt minn um virðinguna þegar við erum hér og ræðum um fjárlög, þá virðingu að stjórnarliðar og þá sérstaklega meðlimir í fjárlaganefnd mæti hingað og svari okkur, taki andsvör við okkur eða við fáum að hlusta á ræður þeirra líka. Hér eru tveir meðlimir í fjárlaganefnd. Einn þeirra er samflokksmaður minn, forseti, þannig að ég veit ekki hversu mikið hann er að fara að gagnrýna mig jafnvel þó að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sé ekki mikið fyrir það að halda aftur af sér. Ég held því að það væri bara betra fyrir okkur öll að fresta umræðunni, því að ég er nokkuð viss um að hv. stjórnarliðar væru mjög gjarnan til í það að geta tekið þátt í þessum umræðum með okkur hér í dag og alveg eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir sagði þá væri miklu sniðugra að gera þetta í dagsljósi. Það er spurning hvort þessi umræða sé einmitt bara til málamynda.