154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og hún kom hérna í restina. Það var ánægjulegt að heyra hann lesa upp úr nefndarálitinu. Það er alveg rétt að hér hefur orðið mikil íbúafjölgun, alveg gríðarleg, 3% eins og þingmaðurinn kom inn á, sem er að valda okkur, ég segi nú ekki erfiðleikum en það er áskorun fyrir okkur að bregðast við þessari íbúaþróun. Af hverju er þessi þróun? Af hverju er fólk að koma hingað og setjast hér að? Af hverju er þessi fjöldi fólks af erlendum uppruna kominn hingað til Íslands? Það er að vinna fyrir okkur störfin sem við höfum ekki mannskap til að vinna, m.a. í ferðaþjónustunni og við sjáum þetta hér í iðnaðinum, fiskvinnslunum og á fleiri stöðum þar sem erlent vinnuafl er mjög stór hluti. Þetta eru atvinnugreinarnar sem eru að keyra upp hagvöxt í landinu. Ef við hefðum ekki haft þetta ágæta fólk hér til að vinna þessi störf þá er það mér til efs, hv. þingmaður, að sá efnahagsbati sem er að stórum hluta að þakka ferðaþjónustunni hefði orðið eins brattur og raun ber vitni. Hvað erum við að gera til að koma í veg fyrir þetta? Það er alveg rétt, ég held að það sé ekkert beint í þessu frumvarpi sem er að reyna að koma í veg fyrir að hingað flytji fólk sem vill vinna á Íslandi og er þörf á að vinni á íslenskum vinnumarkaði.