154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:23]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Næst langar mig til að spyrja hv. formann út í hallann í þessu frumvarpi sem stendur í 47 milljörðum. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að tekjur ríkisins séu að aukast mjög mikið, um 200 milljarða milli ára, m.a. vegna verðbólgunnar. Það sturtast inn tekjur, svo miklar að það hefur verið talað um tekjufroðu. Ríkisstjórnin er áfram að boða verulegar lántökur á næsta ári, rándýrar lántökur, og vaxtakostnaðurinn á næsta ári er fyrirhugaður 117 milljarðar kr. Hallareksturinn hefur fylgt ríkisstjórninni allt þetta samstarf. Það var kominn faraldur í fjárlög fyrir heimsfaraldur og mér sýnist að hann verði hérna eftir faraldurinn líka. Mig langar til að spyrja formanninn út í afstöðu hans til vaxtakostnaðarins. Þarf ekki að ræða meira um það hvað ríkið er að verja, ég ætla að leyfa mér að segja það, sturluðum fjárhæðum í vaxtakostnað? Auðvitað blasir við að þetta hefur (Forseti hringir.) áhrif á burði og getu okkar til að fjárfesta í innviðum og þjónustu. Hefur formaður nefndarinnar (Forseti hringir.) ekki áhyggjur af að þetta sé vaxtakostnaðurinn á hans vakt?

(Forseti (ÁsF): Ég minni þingmenn á ræðutímann.)