154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:52]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég vind mér bara í lokaorð hv. þingmanns varðandi bæturnar þá er ég þess þenkjandi almennt að það sé betra að við lækkum frekar skattbyrði tekjulægstu hópanna hér á landi. Það hefur verið áhersla ríkisstjórnarinnar undanfarin ár með góðum árangri. Húsnæðisbætur hafa tilhneigingu til að fara beint inn í leiguverðið til að mynda þannig að við skulum ekki flækja einfalda hluti sem við vitum nákvæmlega hvernig virka best. Barnabæturnar eru síðan annað. Þar hefur verið gerð kerfisbreyting þar sem fleiri áttu kost á að fá bætur. Hins vegar er það orðað svo af hv. þingmanni að fólk sé að missa bætur þegar það hækkar í launum. Ég vil líka fá að nefna sem þingmaður Reykjavíkur, frú forseti, að barnabætur hér á landi eru auðvitað áskorun þegar fólk missir tekjur því það fær ekki pláss fyrir börnin sín í leikskólum. Ég vil því hvetja hv. þingmann til að beina spjótum sínum líka að Samfylkingunni í Ráðhúsi Reykjavíkur. (Forseti hringir.) Leysum þann vanda foreldra í staðinn fyrir að beina að ríkisstjórninni að leysa vandann í Ráðhúsinu með auknum barnabótum.