154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:03]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég get tekið undir með hv. þingmanni að vissulega hefur gengið vel á Íslandi og atvinnuþátttaka verið einstaklega mikil og velferð sömuleiðis. Það sem stendur upp úr í þessum málflutningi — vegna þess að það vill þannig til, herra forseti, að ég hef bæði fengið vaxtabætur og barnabætur á minni lífstíð og þurfti verulega á þeim að halda og ég er alls ekkert að segja að fólk sé eitthvað ofalið af bótum en síðan er ég bara að segja það að ef vænkast hagur hjá fólki, eins og mér sýnist þróunin vera í þessum tilfellum, þá auðvitað dettur fólk út af bótum. Það er bara sá veruleiki sem blasir við og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að vera ekki með eitthvert sjálfkrafa bótakerfi sem eltir fólkið ef betur gengur. Það er kannski minn punktur. Það má vel vera að við séum bara að nálgast hlutina frá sitthvoru sjónarmiðinu og séum raunverulega sammála um þetta. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann að lokum hvort við þurfum að horfa til annars konar stuðnings (Forseti hringir.) í ljósi þess sem blasir við okkur núna í efnahagsmálum, annars stuðnings sem þyrfti þá að koma til og hvort hún hafi hugmyndir um slíkan stuðning.