154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samfylkingin hefur kannski ákveðið að forgangsraða ákveðnum málefnum og aðferðafræði sem hún telur líklegra að við náum í gegn vegna þess að staðreyndin er sú á þessum tímapunkti að við fáum hér ítrekað inn í þingið — það var reyndar líka þannig á tímabili síðustu ríkisstjórnar sem Samfylkingin sat í, en líka þessarar ríkisstjórnar, og hæstv. matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir er núna komin með enn eitt stóra sjávarútvegsfrumvarpið. Ég óttast einfaldlega að við festumst í viðjum þess að það á að reyna að gera svo margt í einu og svo flóknar breytingar að það hreyfist ekkert í aukinni gjaldtöku af greininni. Það er það sem við þurfum á tímum sem þessum. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, það er stórkostlegt að það gangi vel í sjávarútvegi en við eigum öll að eiga í þessari velgengni og það er forgangsatriði hjá mér og okkur í Samfylkingunni, og ég vona að við getum náð saman um það, að við fáum meiri hluta af auðlindarentunni okkar. Aðferðafræðina getum við alveg rætt. En ég held að við eigum að sameinast um það að standa ekki stappi um aðferðafræðina og byrja a.m.k. á gjaldtökunni.