154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Nei, þetta er ekki bara verkefni Seðlabankans en hann er að taka ansi stóran hluta af því með stýrivöxtunum og þetta er ekki bara verkefni ríkisstjórnar en það virðist hins vegar lítið koma þaðan. Ef þetta eru aðhaldssöm fjárlög, hvernig líta þá fjárlög út sem eru ekki aðhaldssöm? Það er verið að bæta við næstum því 2 milljörðum á milli umræðna. Það er vissulega ekkert rosalega mikið, en það er til viðbótar við það sem seðlabankastjóri kallaði hlutlaus fjárlög. Samhengi ástandsins — já, það er 8% verðbólga en á undanförnu ári hefur hækkun matvöruverðs verið 9,9%, það er stór útgjaldaliður hjá flestum heimilum. Það þýðir að í þeim hluta ráðstöfunartekna sem fer í matvöru er hærri verðbólga heldur en almennt séð. Í húsnæðisliðnum er 10,5% verðbólga á undanförnu ári, þar af 8,7% í leigu, sem er allt hærri tölur heldur en viðmiðunar- og meðaltalsverðbólgan og það vill svo til þetta er aðalhluti verðbólgunnar fyrir fólk sem er í lægri tekjutíundunum. Raunverðbólgan þar er hærri, fyrir utan það að þetta fólk er yfirleitt með lengri lán sem fara þá á hærri vexti og ýmislegt svoleiðis. En við erum með að sögn stjórnarmeirihlutans aðhaldssöm fjárlög. Ég bara skil ekki hvernig er hægt að segja það kinnroðalaust.