132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[13:54]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál og fagna nýtilkomnum áhuga viðkomandi á umhverfismálum.

Ég held að í þessu máli taki ég undir með þeim sem hér hafa nefnt að ekkert kallar á að hraða þessu máli, eins og öllum er ljóst. Þessi mál eru á ís ef þannig má að orði komast. Málið er í lögformlegu ferli og í ofanálag er dómsmál í gangi. Ég tel afskaplega mikilvægt, virðulegi forseti, að við ræðum þessi mál sem og annað varðandi umhverfismál í sölum Alþingis og hjá þjóðinni.

Við höfum sem betur fer farið þær leiðir að afla okkur orku með umhverfisvænum hætti. En nú, sem betur fer, og ég held að það vísi á gott, heyrast sífellt háværari kröfur, réttmætar kröfur, um að við friðlýsum stærri svæði en við höfum gert áður. Þess ber þó að geta að jafnt og þétt hefur verið unnið að því að friðlýsa hér svæði á Íslandi. 11% landsins eru nú friðlýst. Ég tek þá ekki með að nú fyrir áramót voru friðlýstar Guðlaugstungur sem er 400 ferkílómetra svæði norðan við Hofsjökul. — Já, virðulegi hv. þm. Jón Bjarnason, Guðlaugstungur voru friðlýstar og ekki gleyma því.

Margvísleg áform og áætlanir eru um fleira á því sviði. Virðulegi forseti, ég tel mikilvægt að í þessu máli sem og öðrum ræði menn stöðuna heildstætt og fari vel yfir hana. Það er augljóst varðandi þá sátt sem var til staðar þegar Jón Kristjánsson kvað upp sinn úrskurð — menn nærri því grétu hér af gleði yfir honum, m.a. þingmenn Samfylkingarinnar — að ýmislegt hefur breyst síðan. Þá fara menn bara í rólegheitunum yfir málið og ekkert sem kallar á annað en rólega og yfirvegaða umfjöllun.