132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[16:26]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við eins og alþjóð veit að ræða ansi sérstakt mál sem að mínu mati hefði mátt koma í veg fyrir. Vegna tregðu ríkisstjórnarflokkanna við að fara eftir óskum stjórnarandstöðunnar um að kalla þing saman fyrir gildistöku þessa úrskurðar hafa nú komið upp mörg álitamál. Eitt af þeim felst í því hvort þetta inngrip sé með einhverjum hætti óeðlilegt og óheppilegt eða fari hugsanlega í bága við stjórnarskrá.

Við sjáum að þar sem þessi úrskurður hefur nú þegar tekið gildi getur þetta vakið ákveðnar spurningar varðandi lögmæti þess að setja þau lög sem þetta frumvarp lýtur að. Við sjáum að lagaprófessorar hafa velt því fyrir sér hvort þetta standist og þetta er auðvitað eitt af því sem efnahags- og viðskiptanefnd mun að sjálfsögðu skoða vel í sinni vinnu.

Í fréttum sjónvarpsins frá 30. desember sl. er talað við Eirík Tómasson lagaprófessor — inngangurinn að þeirri frétt er, með leyfi forseta:

„Einn embættismaður ríkisins á þó ekki von á launalækkun, það er forseti Íslands.“

Síðan er vitnað beint í ummæli Eiríks Tómassonar þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Vegna þess að í stjórnarskránni er beinlínis tekið fram að óheimilt sé að lækka greiðslur til forseta kjörtímabil hans, þ.e. laun og aðrar greiðslur.“

Annar lagaprófessor tekur í svipaðan streng, Sigurður Líndal fyrrv. lagaprófessor.

Hann segir 9. janúar sl. í viðtali við NFS, með leyfi forseta:

„Í lögum um laun forseta Íslands segir að Kjaradómur skuli annast það verk. Þetta er í 1. gr. þeirra laga. Síðan segir í 2. gr. laga um Kjaradóm, þ.e. að þetta skuli gert á þennan hátt, og þar er svo þetta ítrekað og Kjaradómur hefur síðan ákveðið þessi laun á grundvelli 5. gr. með þeim viðmiðum sem þar eru. En síðan segir í 9. gr. stjórnarskrárinnar að óheimilt sé að lækka laun forseta kjörtímabil hans. Nú, af þessu dreg ég þá ályktun að þarna hafi laun forseta verið ákveðin lögum samkvæmt eins og segir í stjórnarskránni og þá jafnframt að þeirri ákvörðun verði ekki breytt út kjörtímabil hans.“

Þarna eru tveir virtir lagaprófessorar búnir að velta því fyrir sér hvort það inngrip sem þetta frumvarp lýtur að standist stjórnarskrá. Ég geri mér fulla grein fyrir því að í greinargerðinni með stjórnarskránni frá 1944 segir í lögskýringargögnum varðandi 9. gr., með leyfi forseta:

„Með fyrirmælunum er einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann í upphafi hafði en engan veginn tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.“

Þetta segir í athugasemdum með stjórnarskránni sem var samþykkt 1944 og að sjálfsögðu þurfum við að skoða þetta ákvæði 9. gr. í því ljósi. Ef þannig er í pottinn búið að lagaákvæði séu það afgerandi að þau stangist jafnvel á við greinargerðina gildir að sjálfsögðu ákvæðið sem slíkt því að athugasemdir með lagaákvæðum eru einungis lögskýringargögn. Það eru til dæmi þar sem dómstólar hafa komist að því að skilningur í greinargerð sé ekki í samræmi við orðalag sjálfs ákvæðisins. En þetta þarf efnahags- og viðskiptanefnd að skoða og væntanlega fá þessa ágætu lagaprófessora á sinn fund því að þetta skiptir að sjálfsögðu líka miklu máli.

Síðan eru fleiri álitamál varðandi þetta frumvarp sem varða hina hópana sem heyra undir Kjaradóm. Hér er ekki einungis um að ræða þingmenn, ráðherra og forseta, hér eru aðrar stéttir sem hafa fengið þessa launahækkun í samræmi við úrskurð Kjaradóms en munu síðan fá skerðingu með þessu frumvarpi, verði það samþykkt. Það má t.d. velta fyrir sér sanngirninni í því að þegar Kjaradómur ákvað að setja upp ákveðna launatöflu árið 2003 þá ákvað hann að hæstaréttardómurum skyldi vera skipað í launaflokk 137 en í þeim flokki í kjaranefnd var ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins. Þarna var sem sagt vilji Kjaradóms að þessir aðilar, hæstaréttardómarar og síðan ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, væru í sama flokki.

Með þessu frumvarpi breytist þetta, hæstaréttardómarar munu þá fara niður um einn og hálfan launaflokk, vera á bilinu 135 til 136, og það má alveg velta fyrir sér hvort það sé sanngjarnt gagnvart þeim. Ég tek að sjálfsögðu undir það sem aðrir þingmenn Samfylkingarinnar hafa sagt hér í dag, við erum að sjálfsögðu tilbúin að samþykkja þetta frumvarp hvað varðar launahækkanir þingmanna og ráðherra en hitt þarf auðvitað frekari skoðunar við. Við hér á þingi sáum þetta frumvarp fyrst í morgun og þar sem það eru álitamál í því þarf að skoða þetta mjög vel.

Annað álitamál hefur verið vakið hér í umræðunni en það varðar einingarnar svokölluðu sem kjaranefndarfólk fær sem hluta af kjörum sínum. Því hefur verið velt upp hvort frumvarpið muni skerða þær einingar og þar af leiðandi ná til kjaranefndarfólks en ekki einungis til kjaradómsfólks. Þetta þarf auðvitað að fást á hreint, það er álitamál hvort þetta nái til viðkomandi fólks sem heyrir undir kjaranefnd en reglan varðandi þessar einingar hefur verið að þær væru 1% af 130. launaflokki. Þetta þurfum við líka að skoða, hvort verið sé að skerða réttindi þessa stóra hóps sem heyrir undir kjaranefnd en það eru allt að tvö þúsund einstaklingar. Það er því ýmislegt sem nefndin þarf að skoða og við hér í þinginu einnig.

Í öðru lagi vil ég nefna að ég er sammála öðrum hér inni um að við teljum að Kjaradómur hafi einfaldlega sinnt skyldu sinni með þessum úrskurði, þ.e. hann hafi ekki brotið lög eða eitthvað slíkt. Hann ákvað úrskurð sinn út frá þeim forsendum sem eru í lögunum, þar á meðal leit Kjaradómurinn til kjaranefndar og á þeim tíma sem kjaranefnd úrskurðaði hækkanir sínar bárust engin mótmæli varðandi það.

Síðan er annað viðmið sem Kjaradómur þarf að líta til, það eru svokallaðar viðmiðunarstéttir og hækkanir þeirra stétta liggja að sjálfsögðu hjá ríkisstjórninni og fjármálaráðherra þess tíma og núverandi. Það er fyrirmyndin sem kjaranefnd og Kjaradómur líta til þannig að ef við ætlum að líta á upphaf þessa máls þá þarf auðvitað að skoða þá samninga sem hæstv. ráðherrar eru ábyrgir fyrir því að þannig byrjaði þetta. Þannig eiga kjaranefnd og Kjaradómur að starfa, það verður að líta á almenna launaþróun og þessar viðmiðunarstéttir. Pólitísk ábyrgð liggur því þar, hún liggur ekki hjá Kjaradómi, hún liggur hjá hæstv. ríkisstjórn því að það er hún sem semur og setur standardinn og við þurfum auðvitað að ræða hér eins og oft áður almennt um kjarapólitík í landinu.

Skoðum einfalda staðreynd sem sýnir að þessi þróun ætti ekki að koma hæstv. ráðherrum á óvart. Tökum saman fjárlögin árin 2000–2004 þá var samkvæmt þeim áætlað að þessi fjárlög mundu skila 82 milljarða kr. afgangi. En þegar reikningurinn var gerður upp var niðurstaðan sú að þar varð 8 milljarða kr. halli, þ.e. í stað 82 milljarða kr. afgangs varð 8 milljarða kr. halli. Við vitum að langstærstur hluti ríkisútgjalda eru laun svo þessar launahækkanir ættu ekki að koma neinum á óvart. Til gamans má nefna að árið 2003 jukust ríkisútgjöld um að meðaltali 2 milljónir kr. á klukkustund frá samþykktum fjárlaga. Þetta endurspeglar og undirstrikar þau lausatök sem ríkisstjórnin hefur á ríkisfjármálunum og við í stjórnarandstöðunni höfum iðulega bent á. Ábyrgðin liggur því hjá ríkisstjórninni og þessar tölur sýna að þetta ætti ekki að koma þeim á óvart, ábyrgðin hvað þetta varðar liggur ekki hjá Kjaradómi.

Í þriðja lagi vil ég nefna að þetta kerfi, þ.e. kjaranefnd og Kjaradómur, þarfnast endurskoðunar og nefnd sem er búið að boða undir forustu Jóns Sigurðssonar fyrrverandi ráðherra mun væntanlega fara í þá vinnu fljótlega upp úr samþykkt þessa frumvarps, en ég tel að eitt af lykilatriðunum í þeirri vinnu þurfi að vera að tryggja gegnsæi. Við sjáum að þetta kerfi er ekki mjög gegnsætt og þá vil ég sérstaklega taka það fram með þær einingar sem bætast við launin að það geta verið allháar upphæðir sem viðkomandi einstaklingur fær í þeim. Ef við tökum kjaranefndina fyrst, þá eru samkvæmt úrskurði hennar föst laun ráðuneytisstjóra 655 þúsund kr. en síðan bætast við einingar allt að 200 þús. kr. til viðbótar. Við sjáum líka að skattstjórar eru með tæplega 470 þús. kr. í laun en einingar sem bætast við eru allt að 190 þús. kr.

Ef við hlaupum hratt yfir og skoðum þær stéttir sem eiga að heyra undir Kjaradóm sjáum við að samkvæmt Kjaradómi eru hæstaréttardómarar með 630 þús. kr. í laun en þeir eru með einingar upp á 223 þúsund, sem segir það að þeirra laun eru 850 þúsund en ekki 630 þúsund. Þetta sýnir okkur að kerfið þarf að vera gegnsærra. Ég skil ekki alveg þörfina á að hafa þetta einingakerfi, ég skil ekki af hverju það er ekki einfaldlega hægt að hafa bara laun. Að sama skapi tel ég að þingfararkaupið ætti að endurspegla þau raunverulegu kjör sem við höfum. Þingmenn hafa eitthvert fyrirbæri sem heitir starfskostnaðargreiðslur, sem eru u.þ.b. 50 þús. kr. og að mínu mati ætti sú greiðsla einfaldlega að vera hluti af þingfararkaupinu (Gripið fram í: Hækka það betur.) til að gera launin sýnilegri. Við þurfum að hafa það á bak við eyrað að laun almennt, sérstaklega þessara stétta, þurfa að vera sýnileg og ég tel að sú nefnd sem nú verður sett á koppinn eigi að skoða þetta með hliðsjón af því.

Við sjáum líka annan vinkil, það eru hinir svokölluðu stofnanasamningar sem að sjálfsögðu hafa bein áhrif á þessa ákvörðun kjaranefndar og ákvörðun Kjaradóms. Þeir eru í sjálfu sér ekki sérstaklega sýnilegir en hins vegar geta þeir velt ýmsu af stað eins og þetta mál sýnir, þar sem kjaranefnd og Kjaradómur hafa m.a. tekið mið af þeim stéttum sem hafa gert stofnanasamninga.

Mig langar að lokum að tala aðeins almennt um kjaramál því að þetta gerist ekki í einhverju tómarúmi, Kjaradómur starfar ekki í einhverju tómarúmi. Þetta kemur okkur við að sama skapi og starfslokasamningar í viðskiptalífinu koma okkur við og við eigum að hafa skoðun á þessu, ég tala nú ekki um þegar þessar ákvarðanir, hvort sem þær eru teknar á hinum almenna vinnumarkaði eða gerðar í formi starfslokasamninga eða hjá Kjaradómi, geta stefnt stöðugleikanum á vinnumarkaðnum í voða. Þess vegna eigum við að hafa skoðanir á þessu og eigum að ræða þetta.

Varðandi kjarapólitíkina í þessu landi sem oft tekur á sig skrýtnar myndir, þá tókum við eftir hvers konar viðbrögð borgarstjórinn í Reykjavík fékk þegar Reykjavíkurlistinn ákvað að gera það sem allir hafa verið að tala um, þ.e. að hækka laun lægstu stétta, svokallaðra umönnunarstétta, sem allir þingmenn hafa talið þörf vera á. Þegar það er loksins gert er viðkomandi stjórnmálamaður gagnrýndur harðlega fyrir að gera það sem við öll boðum og er svo sannarlega tímabært, þ.e. að hækka lægstu launin, en sem betur fer hefur Reykjavíkurlistinn staðið það af sér. Að sama skapi tel ég einnig að kjör leikskólakennara þurfi endurskoðunar við, en þegar þeirra kjör hafa verið leiðrétt tel ég að við þurfum að huga að því afskaplega vandlega hvort aðrar stéttir eigi ekki að sýna þessum stéttum þann skilning að hleypa ekki þessari hækkun upp allan stigann. Ef það gerist náum við aldrei að hækka lægstu launin í samfélaginu og þar af leiðandi náum við ekki að manna þessar stofnanir o.s.frv. Það þarf að ríkja skilningur hjá öðrum stéttum og í samfélaginu, ef við ætlum að hækka laun lægstu stétta má sú hækkun ekki hlaupa upp allan stigann. Þetta er mikilvægt.

Við sjáum það varðandi viðbrögð þjóðarinnar við þessum Kjaradómi að þau eru auðvitað að mörgu leyti skiljanleg. Fólki í landinu svíður staðreynd á borð við þá að þriðji hver eldri borgari er með 110 þús. kr. á mánuði eða minna og af þessum 110 þús. kr. borgar hann um 15 þús. kr. í skatt. Við sjáum einnig að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattamálum þjónar fyrst og fremst þeim sem eru með hærri tekjur, þegar þú ert með flatar tekjuskattslækkanir þá færðu meiri krónutölulækkun eftir því sem tekjur þínar eru hærri, eðlilega, en við í Samfylkingunni buðum þingheimi upp á aðra leið til að lækka skatta sem fólst í að lækka matarskattinn sem hefði komið öllum hópum til góða og ekki síst venjulegu fjölskyldufólki og millistéttinni. Þetta er auðvitað bara pólitískur ágreiningur um hvora leiðina ætti að fara. Það er kannski ágætt að rifja það upp, þar sem ég hef nú tíma, hvernig þessar framkvæmdir ríkisstjórnarinnar í skattamálum munu komast mismunandi til skila til ólíkra hópa.

Við sjáum það t.d. að þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru allar komnar til framkvæmda eftir tvö ár þá mun fjölmennasti hópur einstæðra foreldra fá u.þ.b. 8 þús. kr. lækkun á mánuði en að sama skapi fær maður sem er með milljón á mánuði lækkun upp á tæpar 100 þús. kr. í hverjum mánuði eða tæplega tólf sinnum hærri upphæð en einstaklingur sem er í fjölmennasta hópi einstæðra foreldra. Hálaunahjón með tæpa milljón kr. á mánuði samanlagt fá eftir að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru komnar til framkvæmda um 66 þús. kr. í skattalækkun á mánuði eða tæplega 800 þús. kr. ári. Í fjölmennasta hópi millitekjuhjóna sem eru með 375 þús. kr. á mánuði fær fólk rúmlega helmingi lægri upphæð en þá sem hin efnuðu hjón fá frá ríkisstjórninni. Í þessu endurspeglast auðvitað ákveðinn grundvallarmunur á hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar.

Ef við skoðum einungis þær skattalækkanir sem koma til framkvæmda á þessu ári mun tekjuskattslækkun ríkisstjórnarinnar færa grunnskólakennara með meðallaun u.þ.b. ígildi eins bleiupakka á mánuði en milljón króna maður, maður með eina millj. kr. á mánuði fær u.þ.b. 23 þús. kr. í skattalækkun mánaðarlega eða sem kannski samsvarar einni utanlandsferð í hverjum mánuði.

Þetta er auðvitað mikill munur og í þannig andrúmslofti er alveg skiljanlegt að fólk setji spurningarmerki við starfslokasamninga og Kjaradóm o.s.frv. Við sjáum með fyrirbæri eins og hinum velþekkta Gini-stuðli, sem mælir ójöfnuð í viðkomandi samfélagi, að ójöfnuður í okkar samfélagi hefur verið að aukast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Að sama skapi hefur skattbyrði einstaklinga einnig verið að aukast og svar fjármálaráðherra við fyrirspurn þingmanna Samfylkingarinnar staðfestir að æ stærri hópur greiðir hærra hlutfall tekna sinn í tekjuskatt en hann gerði árið 1995 þegar núverandi ríkisstjórn tók við. Fólk borgar því hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt og að sama skapi er skattbyrði lægstu hópanna að aukast. Þetta er þróun sem við þurfum að snúa við og ef við lítum á tölur OECD hefur skattbyrði einstaklinga aukist mest á Íslandi frá árinu 1990 af öllum ríkjum OECD fyrir utan Grikkland. Þetta er afrakstur þessarar stefnu ríkisstjórnar ójafnaðar og aukinnar skattbyrði.

Þetta tengist auðvitað þessu atriði sem við erum að tala um hér í dag. Fólkið í efnahags- og viðskiptanefnd mun að sjálfsögðu skoða þetta frumvarp vel og það ber að vanda sérstaklega vel til verka varðandi stjórnarskrána og önnur álitamál sem bæði prófessor Eiríkur Tómasson og prófessor Sigurður Líndal hafa vakið máls á. En ég held að það sé alveg augljóst og að fólk sjái það að við hefðum getað komist hjá ýmsum af þessum álitamálum með því að fara þá leið sem stjórnarandstaðan bauð ríkisstjórninni fyrir áramótin sem laut að því að kalla saman þing og fresta gildistöku þessa úrskurðar. Þá stæðum við ekki frammi fyrir þeirri staðreynd að úrskurðurinn hefur tekið gildi, fólk er búið að fá greitt samkvæmt honum ein mánaðamót og nú stefnir í að fara til baka og það vekur einfaldlega spurningar. Leið stjórnarandstöðunnar var því augljóslega skynsamleg og hún hefði fækkað álitamálum í þessu máli sem eru alveg næg fyrir að mínu mati.