132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:51]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar launin hækka upp allan skalann verður það hættulegt ef ekki er innstæða fyrir því í aukinni verðmætasköpun svo ég haldi áfram frá fyrri ræðu minni. Það er þá auðvitað heildin sem skiptir máli, það eru ekki endilega þeir efstu heldur heildin sem tekin er út úr verðmætasköpuninni sem laun ef þau eru ekki í samræmi við aukna verðmætasköpun. Þess vegna þarf að fara varlega í þessum efnum. Það er ekki það að menn vilji ekki hækka laun hinna lægstu heldur er það bara staðreynd að í launamálum og launasamningum eru það samanburðarfræðin sem gilda og menn miða sig við næsta og þar næsta og þar fram eftir götunum og þá hefur þetta þau áhrif sem við erum að lýsa og menn hafa verið að glíma við árum, áratugum, árhundruðum og jafnvel árþúsundum saman. En við skulum ekki gefast upp, nei, nei, við skulum halda áfram en aðalatriðið er að á endanum bætum við kjörin fyrir alla.