136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er dálítið athyglisverður málflutningur. Í sporum stjórnarþingmanna mundi ég tala af hógværð um gjaldeyrishöftin. Að reiða það fram sem röksemd fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé orðinn að einhverri haftastofnun sem haldi upp á það alveg sérstaklega að hindra frjálst flæði fjármagns, ég held að það séu ekki miklar innstæður fyrir því hjá hv. þingmanni.

Það sem gjaldeyrishöftin segja hins vegar og maður þorir varla að taka sér í munn er náttúrlega það að meira að segja Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er svo efins um að þetta heppnist að hann fellst á gjaldeyrishöft. Það er það sem stjórnarliðar ættu að hafa í huga þegar þeir tala um þetta. Það er auðvitað nánast eins og vantraustsyfirlýsing á áætlunina að sjóðurinn skuli telja og fallast á að það þurfi gjaldeyrishöft til að setja þetta í gang. (Gripið fram í.)

Prógrammið er ekkert annað en gamla harðlínustefnuprógrammið, með hækkun vaxta og blóðugum niðurskurði opinberra útgjalda. Það er gamla og mislukkaða aðferðin, að reyna að skera niður og spara samfélagið í gegnum kreppuna sem hefur alls staðar endað illa, með meira atvinnuleysi og meiri erfiðleikum en hjá þeim löndum sem hafa valið aðrar leiðir, eins og Malasía sem tók ekki lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við mjög erfiðar aðstæður, sambærilegar okkar að mörgu leyti og fór sína eigin leið. Erfiða leið sem við getum kallað núlllausn, en ætli sú leið hafi ekki þegar á daginn kom reynst betur en hin leiðin? Sum önnur nágrannaríki lentu í alveg gríðarlegum erfiðleikum einmitt vegna þess að þau völdu hina leiðina.

Ríkisstjórnin getur að minnsta kosti ekki gagnrýnt hugmyndir um að gera eitthvað annað með því að þær mundu kalla á gjaldeyrishöft eins og hv. þm. Árni Páll Árnason reyndi að gera áðan. Það er nú bara þannig að það er ekki sá sem hér stendur sem ber ábyrgð á því að hafa sett á gjaldeyrishöft. Það er ríkisstjórnin. Það eru allir frelsispostularnir. (Gripið fram í.) Postular hinnar frjálsu samkeppni. Frjálshyggjupostularnir, bæði í síðum og stuttum buxum, sem það hafa gert.