136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að við getum ekki greitt þessar erlendu skuldir nema með útflutningi, það gerist ekki öðruvísi. Við þurfum því að auka útflutninginn. Við höfum minnkað innflutninginn töluvert en við þurfum að auka útflutninginn enn meira með því að virkja og nýta þær auðlindir sem við eigum. Þær eru ekki nýttar nema að 30% og ég tel mjög mikilvægt að virkja.

Ekki er víst hvort menn fara endilega í að auka álframleiðslu, ýmsir aðrir kostir eru í stöðunni hvað það varðar að nýta orkuna. En mér finnst sjálfgefið að við höldum áfram að virkja og reynum að afla þjóðarbúinu tekna því að ekki veitir af. Þær skuldir sem við erum að taka á okkur eru að mestu leyti erlendis og við þurfum að ráðstafa hluta af útflutningi okkar til að greiða þær skuldir sem er mjög hastarlegt. Það er öndvert við aðrar þjóðir, Bretar eru t.d. með skuldir innan lands. Þá fara peningarnir inn í þeirra eigið efnahagslíf en hér fara þeir út úr atvinnulífinu. Sá er meginmunurinn á þessu. Menn þurfa því að vera mjög varkárir, þeir sem eru að semja fyrir okkar hönd, að skuldbinda þjóðina ekki of mikið og taka ekki mið af því sem aðrar þjóðir skulda sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, það er bara allt annar handleggur.

Skuldir innan lands eru allt annað. Þar geta menn prentað peninga, millifært o.s.frv. En skuldir til útlanda þýða að ráðstafa þarf hluta af útflutningnum sjálfum til greiðslu og það er miklu alvarlegra. Það er því mjög mikilvægt að auka útflutninginn, auka tekjur þjóðarinnar og við þurfum að stuðla að menntun og nýsköpun eins og mögulegt er.