136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:23]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við eigum ekki að tengja þessi mál saman, segir þingmaðurinn, en staðreyndin er auðvitað sú að þessi mál eru tengd saman, þau hanga algerlega saman og það voru Bretar sem tengdu þau saman með því að nýta hryðjuverkalögin og spyrtu það svo líka saman við fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Þegar sagt er að við höfum enn þá einhvern rétt til þess að sækja þetta mál gagnvart þeim, þá segir formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, í umræðum á Alþingi 17. nóvember sl., með leyfi forseta:

„Við höfum rætt það og það hefur verið lagt til að þetta færi annaðhvort fyrir dómstól eða einhvern úrskurðaraðila en það væri mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að finna dómstól eða úrskurðaraðila sem báðir aðilar gætu sætt sig við. Okkar mat er einfaldlega að það að halda áfram þessum langvinnu lagaþrætum mundi leiða til mikils taps, ekki síst fyrir okkur Íslendinga þar sem eignir hefðu brunnið upp á meðan, eignir sem búið er að frysta í Bretlandi. Í versta falli hefði þessi deila getað leitt til þess að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði væri í uppnámi. Við töldum sem sagt ekki á það hættandi að setja samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði í uppnám vegna þessarar lagaþrætu eða gera það að verkum að við einöngruðumst á hinum alþjóðlega vettvangi. Þess vegna er þessi niðurstaða fengin sem við teljum að sé ásættanleg fyrir okkur við þær aðstæður sem nú eru uppi.“

Þarna liggur bara í hlutarins eðli að formaður Samfylkingarinnar telur að þetta sé ásættanleg niðurstaða og þá verður væntanlega ekki haldið áfram neinum lagaþrætum við Breta.