137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið. Við erum þá á sama báti, ég og hv. þingmaður, og það eru fleiri Íslendingar á þeim sama báti. En það vill svo til að á morgun greiðum við atkvæði um það að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það liggja reyndar frammi nokkrar breytingartillögur og þar munum við taka ákvörðun um það hvort við ætlum að sækja um eða ekki. Umsókn er umsókn, alveg sama hvað maður vill og hvað maður hugsar. Það er eitthvað sem mun hafa áhrif til framtíðar, ekki bara fyrir hv. þingmann og ekki bara fyrir mig heldur fyrir þjóðina og börn okkar og ekki bara núna heldur um alla framtíð því það gæti gerst og er alls ekki ólíklegt að slík umsóknarbeiðni leiði til samkomulags sem er með nægilega miklum undanþágum í svo langan tíma, segjum 15–20 ár, að Íslendingurinn falli fyrir loforðunum og óttist afleiðingarnar ef hann samþykkir ekki, hótanirnar og fallist á það að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það gæti gerst og við þekkjum allt það fé sem Evrópusambandið hefur til að beita í áróðri fyrir slíkri niðurstöðu.